22.03.1938
Neðri deild: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2964)

67. mál, gjaldeyri handa innlendri iðju

Flm. (Einar Olgeirsson):

Í sambandi við framkomna till. um að vísa málinu til ríkisstj. vildi ég segja það, að ég álít fyllilega nauðsynlegt, að Alþ. og n. þess athugi gjaldeyrismálin betur en verið hefir, og ég hefi á takteinum fyrir áframhaldandi umr. málsins ýmislegt fleira, sem þyrfti að taka til athugunar í þessu sambandi. Það eru það merkilegar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið nú sem stendur af hálfu gjaldeyrisnefndar, að ég tel fyllilega nauðsynlegt, að málinu verði ekki vísað til ríkisstj., heldur láti Alþ. málið til sín taka.

Þau einkennilegu fyrirbrigði hafa hvað eftir annað verið rædd manna á meðal, sem láta sig snerta innlendan iðnað. að nú sem stendur hefir verið veittur mikill erlendur gjaldeyrir í vélaútbúnað í sambandi við nýjar verksmiðjur, þegar nægilegt er fyrir í landinu af slíkum vélum og hægt er að framleiða allt, sem Íslendingar þurfa í þeim efnum. Á slíkum tímum sem nú, þegar gjaldeyrisvandræðin eru svona mikil, þarf miklu frekar að halda á því að spara í þessum efnum og sjá til, að gjaldeyrinum sé varið sem allra skynsamlegast.

Nýlega hafa verið veittir jafnvel tugir þús. króna af gjaldeyri til að útbúa hér nýjar verksmiðjur með nýtízku vélum, þó að nægileg tæki séu fyrir í landinu til að framleiða samskonar vörur, og það virðist vera einkennileg aðferð að setja tugi, jafnvel hundruð þús. króna af gjaldeyri í þau framleiðslutæki samtímis því, sem það vofir yfir, að þau framleiðslutæki, sem fyrir eru, fái ekki hráefni til rekstrar síns.

Ég álít þess vegna óþarft, þegar Alþ. ætlar að láta málið til sín taka, að koma fram með till. um að vísa málinu til ríkisstj. og láta ekki ræða það. Ég er þess vegna eindregið á móti þeirri till., sem fram hefir komið frá hv. þm. V.-Húnv., og vil þakka hv. 7. landsk. fyrir hans góðu undirtektir og vonast til þess, að till. fái að fara til n. og fái síðan sína afgreiðslu hér í þinginu.