10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (2995)

26. mál, bátasmíðastöð á Svalbarðseyri

Sigurður E. Hlíðar:

Flm. þessarar till., hv. þm. S.-Þ., gefur mér tilefni til að segja nokkur orð. Honum féll það auðsjáanlega miður, að ég rann á vaðið og gerði nokkrar aths. við þessa till., eða grg. aðallega, og fór hann mörgum orðum þar um. Hv. þm. kom allmjög inn á atvinnuleysi á Akureyri og ómegðarþunga. Það er ekki hægt að neita því, að sveitarþungi á Akureyri, eins og í flestum öðrum kaupstöðum, er mjög mikill Og mun láta nærri, eins og hann segir, að nálega 1/4 af íbúum bæjarins hafi notið eða njóti framfærslustyrks; bærinn sé, skildist mér, þess vegna dýrari. En ég skil þá ekki, að helzta leiðin til að bæta úr þessu sé það, að draga úr þeim iðnaði, sem kominn er þó dálítið af stað í Akureyrarbæ. með því t. d. að flytja alla bátasmiði til Svalbarðseyrar. Heldur hv. þm. S.-Þ., að sveitarþungi á Akureyri myndi minnka við það, að tekinn væri kjarninn úr iðnaðarstétt bæjarins og fluttur til Svalbarðseyrar? Ég geri ráð fyrir, að skipasmiðir á Akureyri myndu leita atvinnu á Svalbarðseyri. Við verðum fátækari, þar sem smiðirnir eru helztu bjargálnamennirnir, því það vitum við, að iðnaðarmenn hafa borið síðustu tíu árin einna mest úr býtum. Það, sem fyrir flm. vakir sérstaklega, er að flytja þessa bátasmíði út fyrir dýrtíðina. því með því að hafa hana á dýrum stað myndu bátar verða svo afskaplega dýrir, að sjómenn gætu varla keypt þá, sem myndi verða mikill kostnaðarauki fyrir útgerðina, og þar af leiðandi ekki samkeppnisfærir. Eða heldur hv. flm., að við yrðum samkeppnisfærir við Norðmenn, ef við bæði keyptum viðinn þaðan og borguðum hærra kaup? Ég held ekki. Við verðum seint samkeppnisfærir við Norðmenn undir þessum tveim skilyrðum, sem fyrr segir. En ef hv. þm. gæti bent á leið til að flytja þessa bátasmiðastöð og vinnukraft á svo ódýran stað, að við gætum fengið miklu ódýrari skip með þessu fyrirkomulagi, gæti ég gengið inn á þetta. En ég þykist vita, að fagfélög þeirra smíða, sem kæmu úr kaupstöðum, hefðu nokkurn veginn ákveðinn taxta þar eins og hafður er á Akureyri, Siglufirði, Reykjavík eða hvaðan sem þeir væru fengnir. Og mér sýnast þessar opinberu stofnanir hér á Íslandi ekki hafa verið svo ódýrar í rekstri hingað til, að ég vænti ekki, að það út af fyrir sig verði mikill sparnaður á þessu sviði, þó að þetta atvinnufyrirtæki væri rekið af ríkinu.

Það er náttúrlega gaman að heyra þær upplýsingar um smiði á stærsta skipi heimsins, sem verið er að smíða við Clyde. Hann fullyrti, að aðstaða væri nákvæmlega sama og á Svalbarðseyri. Ég er nú ekki svo vel að mér í landafræði og langt síðan ég hefi lesið hana; en þótt skipasmíðastöð sé komin hjá Clyde, þá munn eitthvað meiri möguleikar vera þar fyrir hendi fram yfir Svalbarðseyri, því þar er varla að ræða um annað en eyðisand. Og einustu skilyrði, sem þar munu vera umfram aðra staði, er nóg pláss, en ég vil þó ekki samþ., að það sé ekki líka annarsstaðar. Ég geri ráð fyrir, að þar mætti fá landrými með góðum kjörum, en ég er í vafa um, að það yrði með miklu betri kjörum en á Akureyri.

Þá er spurt, hvort ekki sé þá rétt að færa þessa skipasmíðastöð ennþá lengra út fyrir dýrtíðina. Því var skotið að mér áðan, og menn munu kannast við, að í fornöld var byggt hafskip inni í Þjórsárdal. Hjalti Skeggjason byggði skip þar inni í skógarrjóðri. Væri ekki alveg eins rétt að taka fyrirmyndina þaðan og byggja skip okkar inni í Þjórsárdal? Þar eru menn fyrir utan dýrtíðina, og það er næsta sambærilegt og fara út á Svalbarð. Ég fæ ekki skilið, að enda þótt Akureyri sé dýr bær — ég tek hana sem dæmi —, þá sé sjálfsagt að flýja þann bæ vegna dýrtíðarinnar. Ég þykist vita fyrirfram, að þó það verði ekki á fyrsta ári, þá muni fljótt koma í ljós vinnuleysi nokkurn veginn eins á Svalbarði og á Akureyri, af því að smiðir, eins og allir iðnaðarmenn, hafa taxta, er fagfélögin hafa sett. Þótt hægt væri í bili að útvega þessum mönnum húsaskjól t. d. á Svalbarði, myndu þeir ekki sætta sig við það til lengdar. Þeir myndu byggja sín eigin hús og þar myndi svo rísa upp iðnaðarbær. En það er margt, sem vantar af nútímaþægindum; t. d. er þar rafmagnslaust og vatnslaust, auk nauðsynlegra þæginda við smíðið sjálft, sem of lítið er gert úr í grg.