03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Það er tekið fram í l. um fiskimálanefnd, að sá styrkur, sem gert er ráð fyrir að veita úr fiskimálasjóði. sé veittur félögum sjómanna, verkamanna og annara. Ég skil þetta á sama hátt og hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Rang., að svo hafi verið til ætlazt, að það væri fyrst og fremst sjómenn og verkamenn, sem mynduðu þessi félög og væru þátttakendur í þeim, en jafnframt væri gert ráð fyrir, að fleiri gætu þar komið til greina. Ég tel því alls ekki útilokað, að útgerðarfélög bæjarfélaga, ef þau væru til, gætu að einhverju leyti verið þátttakendur í slíkum félagsskap, en ég skil fyrirmæli laganna þannig, eins og ég sagði áðan, að það sé fyrst og fremst átt við félagsskap sjómanna og verkamanna, sem sjálfir vinna á skipunum og við aflann í landi og hafa úrslitavald í þeim félagsskap. Mér finnst eðlilegast, að það fari eftir mati fiskimálan. í hverju tilfelli, hvort slíkur félagsskapur er myndaður á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í lögunum.

Ég er ósammála hv. 2. þm. Reykv. um það, að jafnvel þótt þessi styrkur væri veittur bæjarfélögum, þá sé þar um nokkra þjóðnýtingu að ræða í þeim skilningi, sem venjulega er lagður í það orð, því að þótt slíkum fyrirtækjum væri veittur einhver styrkur til togarakaupa, eins og gert er ráð fyrir í þessum lögum, þá er þar vitanlega alls ekki um ríkisútgerð að ræða, þar sem ríkið eignast ekkert í fyrirtækinu og verður alls ekki á neinn hátt þátttakandi í rekstri þess.