04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

18. mál, lax- og silungsveiði

*Magnús Jónsson:

Sessunautur minn, hv. 6. landsk., segist vilja unna mér betra hlutskiptis en vera kapellan hjá hv. 1. þm. N.-M. (ÞÞ: Ég sagði í slíku máli), og vil ég mjög taka undir það með honum. En þar sem ég fylgi honum nú svo fast, þá sannast þar hið fornkveðna, hvað mikil gleðin er, ef einn syndari bætir ráð sitt. Það er náttúrlega von, að menn undrist yfir því, að ég geti orðið sammála þessum hv. þm., sem yfirleitt er svona með tillögulakari mönnum hér á þingi.

Viðvíkjandi því, sem sessunautur minn sagði, að búið væri fullkomlega um matið, skal ég fara stuttlega út í. Það er tvímælalaust sagt í stjórnarskránni, að þegar eign er tekin í almenningsþágu og þarf að svipta eignarrétti, þá er tveggja skilyrða krafizt. Annað er lagaheimild, og hitt, að fullt verð komi fyrir. Ég álít, að ef eign, sem gefur af sér þúsund kr., er tekin fyrir þrjú þús. kr., þá kemur ekki fullt verð fyrir. Það er sama hvernig það er útbúið. Og þegar um slíkt er að ræða, þar sem hagsmunir heillar sýslu eru á móti einum manni, þá er ekki hægt að búa tryggilega um það með neinum dómstólum með mönnum úr héraði, og hefði átt að vera þannig útbúið, að því sé skotið til yfirmats, sem fram færi annarsstaðar. Og þetta sýnir eitt með öðru, að þótt lögin séu mjög ýtarlega búin til að mörgu leyti, þá er það alls ekki einhlítt, Ég vil benda á stuttlega, að sú breyt., sem gerð var í fyrra, að með brot skyldi farið sem lögreglumál — en lögin ákváðu, að hver einstaklingur yrði að höfða málið sjálfur, — sýnir, að jafnvel þessi vel undirbúna löggjöf getur þó staðið til bóta í einstökum atriðum eins og önnur mannanna verk. Hér hefir verið ágreiningur um það, hvort þyrfti veiðifélög til að geta leyst til sín veiðiréttinn. Því er með einu ákvæði skotið inn í, en ekkert tillit tekið til þess í lögunum að öðru leyti, vegna þess, að upphaflega var ekki ætlazt til annars en samþ. ákveðins fjölda manna, sem að þessu stæðu.