20.04.1938
Neðri deild: 50. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Þessi brtt. hv. 5. landsk. um sektarákvæðið í þessu frv. er ef til vill ekki sérlega þýðingarmikil, af því að lágmarksákvæði sektarinnar er ekki hærra en það er. Ég fyrir mitt leyti geri ekki að kappsmáli, hvort brtt. verður samþ. eða ekki.

Aftur á móti er öðru máli að gegna um brtt. frá hv. 6. þm. Reykv., um það, að ákveða laun matsstjóra, en að matsmönnum sé ákveðið tímakaup og fellt sé niður það gjald, sem frv. gerir ráð fyrir, að lagt sé á útflutta síld fyrir matið.

Ég get ekki mælt með því, að þessi till. verði samþ., og tel, að hún mundi spilla l. talsvert mikið, vegna þess sérstaklega, að það er alis ekki víst, að hægt sé að fá hæfa matsmenn, ef ekki er hægt að tryggja þeim visst gjald fyrir starfsemi þeirra. Allflestir verulega hæfir síldarmatsmenn hafa það trygga atvinnu, að þeir mundu ekki gefa kost á sér til matsstarfsins. ef þessi brtt. yrði samþ.

Ég get ekki heldur, eins og sakir standa, mælt með því, að það gjald, sem frv. ætlast til, að tekið verði af hverri útflutningsmetinni tunnu, verði fellt niður, þó að það sé óneitanlega gott fyrir síldarútflytjendur, ef ríkissjóður vildi taka á sig kostnaðinn við starfsemi matsstjórans að öllu leyti. Ég skal geta þess, að eins og frv. liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að gjaldið, sem tekið yrði af úffluttri síld, hrökkvi til fyrir launum bæði matsstjóra og undirmatsmanna, þannig að ríkissjóður þyrfti engan kostnað að bera af frv. eins og það er, en ef till. hv. 6. þm. Reykv. væri samþ., mundi leiða af því nokkurn kostnað, sem sé laun matsstjóra. Ég álít, að síldarútflytjendur eigi að hafa það mikinn hag af því, að þetta mat verði lögmætt, að það borgi sig fyrir þá, þó að þeir þurfi að greiða þetta litla gjald. Hinsvegar tel ég, að matið muni betur borga sig með því að ráðh. hafi leyfi til þess að ráða menn til starfsins, sem hann álítur færa til þess, og tryggja þeim þau laun, að þeir geti gefið sig við starfinu.

Af þessum ástæðum vil ég mæla gegn þessari till. hv. 6. þm. Reykv. og óska eftir, að hún verði felld, og helzt að frv. verði samþ. óbreytt, því að annars þyrfti að gefa út reglugerð og gera annað þess háttar til þess að þetta yrði tilbúið nægilega snemma, áður en næsta síldarvertíð byrjar, en ef farið yrði að þvæla frv. milli deilda, þá gæti það orðið til þess að tefja fyrir því, að sá árangur næðist í þessu efni, sem síldarútvegsnefnd hefir óskað eftir.