23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Jón Pálmason:

Það hafa þegar orðið nokkuð miklar umr. um þetta mál, og skal ég því vera fáorður.

Að ég kvaddi mér hljóðs nú, er sérstaklega sakir þess, að við 2. umr. þessa máls var fellt hér í deildinni, að taka mætti 50 kr. skólagjald af stúlkum, sem skóla þessa kæmu til með að sækja. Vil ég því leggja áherzlu á brtt. hv. þm. Mýr., að taka megi 40 kr. húsaleigugjald. Verði brtt. þessi ekki samþ., þá hefir það í för með sér annað tveggja, að hækka verður tillög ríkisins til skólanna eða framlög héraðanna, en þau hafa eins og kunnugt er flest fullt í fangi með að standa undir þeim greiðslum, sem á þeim þvíla nú, þó að ekki sé á þær bætt.

Eftir þeirri reynslu, sem fengin er um aðsókn að bændaskólunum, þá tel ég enga ástæðu til að óttast, að aðsókn að húsmæðraskólunum verði ekki nægileg, enda þótt gjald þetta verði sett. Það virðist því engin þörf á að fara að íþyngja héruðunum eða ríkissjóði vegna þessa.

Hvað snertir till. um að fyrirskipa kennslu í húsdýrarækt við húsmæðraskólana, vil ég segja það eitt, að ég sé enga ástæðu til þess að fara að samþ. hana nú, þar sem tekið er fram í frv., að með reglugerð megi ákveða fleiri námsgreinar en þar eru taldar.

Það má vera, að ýmsum finnist eðlilegt og rétt að samþ. brtt. hv. þm. Ísaf. um, að frv. skuli heita frv. til laga um húsmæðrafræðslu í sveitum. En það er ekki rétt, og nægir því til sönnunar að benda á, að t. d. einn húsmæðraskólinn er í kauptúni, og getur því slík fyrirsögn sem þessi í frv. komið illa við.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það er full þörf aukinnar húsmæðrafræðslu j kaupstöðum landsins, engu síður en í sveitum. En ég vil aðeins benda á, að hvað snertir styrk til þeirrar fræðslu frá hendi hins opinbera, þá gegnir þar nokkuð öðru máli. Í kaupstöðunum geta nemendur almennt búið heima hjá sér, og verður því allt önnur aðstaða hvað þá snertir en við sveitaskólana, þar sem nemendur verða að geta fengið fæði og húsnæði keypt.