19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

12. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Borgf. virtist ekki gera sér ljósa grein fyrir, af hverju mín brtt. er fram komin, en ég byggi hana á aðalröksemd hv. flm. Það er sú röksemd, að ekki sé rétt að láta einn hrepp skatta félagasambönd, sem ná yfir marga hreppa. Og ef þetta gildir fyrir ungmennasamböndin, þá á það eins að gilda kvenfélagasamböndin, samstarf slysavarnadeilda, verkamannafélög, íþróttafélög o. s. frv. Ég skal ekki segja, að það sé til svo mikið af slíkum samböndum, sem halda sameiginlegar skemmtanir. En ef þau gera það, þá eiga þau að vera jöfn gagnvart lögunum og ungmennafélög. Það er ekki rétt, að í minni till. séu engin takmörk sett fyrir slík héraðssambönd, því að takmörkin eru þau í till., að þessi félagasambönd starfi að menningar- eða styrktarstarfsemi. Og einmitt vegna þess, að þetta skilyrði er sett fyrir skattfrelsi, þarf ráðuneytið að úrskurða um það. Og ég ætlast ekki til, að ráðuneytið veiti einu sambandi undanþágu, en öðru ekki, alveg samræmislaust, heldur úrskurði, hvort þessu skilyrði er fullnægt, og þegar ágóðinn rennur til menningar- eða styrktarstarfsemi, verði undanþágan veitt.