07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1939

*Steingrímur Steinþórsson:

Við þm. Skagf. eigum hér tvær smáar brtt., sem ég skal segja örfá orð um.

Fyrri till. er á þskj. 444, VIIl, þar sem farið er fram á, að Sigurði Skagfield söngvara verði veittur 1800 kr. styrkur á 15. gr. fjárl. En til vara er farið fram á 1200 kr. Vil ég í sambandi við þessa till. geta þess, að nú mun vera búið að taka alla sambærilega listamenn á þessu sviði inn á fjárl. Í vetur var Eggert Stefánsson samþ., og nú hefir hv. fjvn. gert að till. sinni, að Einar Markan verði tekinn inn á þessa gr. með nokkrum styrk. Þessa menn tel ég sambærilega við Sigurð Skagfield, og tel, að hann standi þeim þó öllu framar sem listamaður. Þess vegna álít ég ranglátt, ef hann væri skilinn eftir, þegar þessir menn hafa verið teknir inn á fjárl. Ég vænti þess því, að ég megi telja það alveg víst, að þingið muni samþ. þessa fjárveiting til Sigurðar Skagfield; ég tel það svo algerlegt réttlætismál, samkvæmt þeirri venju, sem nú er búið að skapa um aðra hliðstæða listamenn á þessu sviði. Skal ég því ekki hafa fleiri orð um þessa brtt.

Hin brtt. er á sama þskj., 1, og er við brtt. hv. fjvn. á þskj. 400, og er um það, að þar er lagt til, að sá styrkur, sem Guðmundur Andrésson hefir til dýralækninga í Skagafirði, verði hækkaður úr 400 kr. upp í 700 kr. Guðmundur þessi Andrésson hefir haft til þessa 700 kr. styrk. En ríkisstjórnin mun við undirbúning fjárlagafrv. síðast hafa fellt niður alla þessa skottudýralækna, þ. a. s. þessa ólærðu dýralækna úti um land, sem hafa fengizt við dýralækningar. Nú er Guðmundur Andrésson sá eini þeirra, sem lækkað hefir á till. fjvn., frá því sem verið hefir um þessa styrki. Þetta finnst mér ósanngjarnt, og furðulegast virðist mér þetta fyrir þá sök, að ég tel, að Guðmundur Andrésson sé sá eini af þessum skottudýralæknum, sem ætti nokkurn rétt á að fá stuðning til dýralækninga. Hann hefir um skeið verið aðstoðardýralæknir hjá tveimur af dýralæknum þessa lands, og hann hefir fengið meðmæli frá þeim báðum, auk þess sem hann er fyrir þetta hneigður. Ég verð því að álíta, að það hafi verið af vangá hjá hv. fjvn., að hún hefir gert till. um að lækka þennan eina mann af öllum þeim, sem hún tók upp viðvíkjandi styrk til dýralækninga. Viljum við eiginlega með þessu leiðrétta þessi mistök hv. fjvn. Því að ég get ekki séð neina skynsamlega ástæðu, sem mælir með því, að taka hjá þessum eina manni af þessum styrk með því að lækka við hann, frá því sem áður var. Um hitt má svo hinsvegar deila, hvort það sé yfirleitt rétt að styrkja menn hingað og þangað um land til þess að stunda dýralækningar, án þess Alþ. hafi nokkra möguleika til þess að dæma um, hvort mennirnir eru færir um þetta eða ekki Ég hefði út af fyrir sig getað fallizt á, að allir þessir styrkir hefðu verið felldir niður. Ef svo hefði verið gert, ætlaði ég ekki að gera kröfu um styrk handa Guðmundi Andréssyni fremur en öðrum til þess að stunda dýralækningar. En úr því hv. fjvn. tekur þessa styrki upp aftur, þá gerðum við kröfu um það, að Guðmundur, sem mun standa fremst af þessum ólærðu mönnum um dýralækningar, verði ekki lækkaður, frá því sem var, um þennan styrk.

Fleiri brtt. við fjárlagafrv. á ég ekki við þessa umr. og mun heldur ekki fara að tala um brtt. annara hv. þm. né um fjárl. að öðru leyti, þó að það væri kannske ástæða til þess.