15.03.1938
Efri deild: 22. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti!: síðasta þingi voru samþ. l. um fjárstjórn bæjar- og sveitarfélaga og tekjur bæjar- og sveitarfélaga. Var þar með gert ráð fyrir, að eldri ákvæði um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga féllu niður. Þar á meðal var ákvæði, sem heimilaði Vestmannaeyingum að leggja vörugjald á vörur, sem fluttar væru að og frá kaupstaðnum, til ágóða fyrir bæjarsjóð. En þessa heimild hafði kaupstaðurinn haft um nokkur ár, og hafði hún verið framlengd nokkrum sinnum. Í stað þessarar heimildar, sem nú er felld niður, er ætlazt til. að komi þessi framfærslujöfnuður, sem l. frá síðasta þingi gera ráð fyrir. Nú hefi ég kynnt mér þetta og fengið órækar sannanir fyrir því, að á þessu ári eiga að koma til úthlutunar úr greindum jöfnunarsjóði nær því 314 þús. kr., sem verður skipt á ýmsa kaupstaði og kauptún, en við þessa skiptingu kemur í ljós, að reglan, sem liggur til grundvallar þessari skiptingu, verkar þannig, að Vestmannaeyingar fá þar ekkert. Ég get mér þess til, að svo mundi oftar fara, að þeir fengju lítið eða ekkert úr þessum sjóði. Ástæðurnar fyrir þessu eru að sumu leyti augljósar. Það er t. d. af því, að þessi kaupstaður býr við svo miklu hærra fasteignamat hlutfallslega en aðrir landshlutar, en það er einmitt fasteignamatið, sem kemur til greina, þegar úthlutun fer fram. Með þetta fyrir augum get ég ekki séð, að hægt sé að kippa þessum gjaldstofni frá kaupstaðnum. Ekki sízt verður það athugavert, þegar þess er gætt, að fátækraframfærslan fer þar sífellt vaxandi. Það hefir verið svo undanfarin ár, að meðalfátækrabyrði Vestmannaeyja hefir verið litlu minni en Hafnarfjarðar og miklu meira en Ísafjarðar. Þó hafa þessir kaupstaðir fengið svo tugum skiptir úr jöfnunarsjóði, en við ekkert. Fátækrabyrðin jókst gífurlega síðasta ár. Það var gert ráð fyrir, að hún yrði svipuð og 1936, eða 100 þús. kr., en hún komst upp í 145 þús. kr. Hér er þó sjálfsagt að einhverju leyti því um að kenna, að vertíðin 1937 var með allra rýrasta móti. Nú er ekki sjáanlegt, að neitt verði létt á kröfum til bæjarfélaganna. A. m. k. hefi ég ekki getað séð hilla undir það. Með þetta allt fyrir augum, sé ég mér ekki annað fært en að vekja athygli Alþ. á þessu. Það vita allir, að það hafa verið uppi ýmsar skoðanir um það, hvort bæjarfélögin ættu að hafa tekjur á þennan hátt, og má ef til vill segja sitt hvað með því og móti, en höfuðástæðan fyrir andúð manna á vörugjaldinu hefir jafnan verið sú, að þessi álagning kæmi niður á öðrum en þeim, sem í kaupstöðunum byggju. Þetta má sjálfsagt til sanns vegar færa á öllum öðrum stöðum á landinu en Vestmannaeyjum. En þetta er af því, að Vestmannaeyjar eru lausar við land og ekki lagður þar tollur eða skattur á neinar vörur, sem ekki eru notaðar í Eyjum sjálfum. Að því er snertir vörur, sem fluttar eru frá Vík, þá er það svo, að það hefir verið um langt árabil, að Vestmannaeyjar hafa verið umhleðslustaður fyrir útflutningsvörur frá Vík. Þetta fer þó alltaf minnkandi. En þessar vörur eru undanþegnar í þessum l. og mundu verða, svo að hér er algerlega um eigið álag að ræða, þ. e. a. s. álag á kaupstaðarbúa sjálfa (PZ: Að mestu leyti). Algerlega, því að þetta gjald verkar ekki svo mjög hækkandi á vöruverð, að þess gæti fyrir menn, sem dvelja í Vestmannaeyjum í atvinnuleit. Ég vildi þess vegna mælast til þess við hv. d., að hún féllist á að leyfa þessum litla tekjustofni að haldast áfram, því að þótt hann að vísu hossi ekki hátt í þeim miklu útgjöldum, sem kaupstaðurinn hefir, þá er það þó svo, að þetta gjald næst inn. Það er ekki bara pappírsgagn, sem svíkur, þegar á á að herða, eins og segja má um mikinn hluta af útsvörunum, og sjálfsagt fer að verða um stóran hluta af fasteignagjaldinu líka. Og það er létt í vasa fyrir bæjarstjórnina að eiga að borga útgjöld bæjarins, bæði til starfsmanna og framkvæmda, og síðast en ekki sízt til þurfalinga, úr bæjarkassanum, sem ætlaðar eru tekjur, sem að miklu leyti má líkja við nýju fötin keisarans. En svona er það farið að ganga víðsvegar. Ég býst við. að það sé ekki einasta í Vestmannaeyjum, að innheimta útsvara gangi treglega, en þar eru útsvörin höfuðtekjustofninn, og þess vegna verður afleiðingin þeim mun örlagaríkari, þegar þau gjaldast ekki.

Ég vildi svo mælast til þess, að málinu verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og fjhn.