28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti! Eins og fram kemur í nál. á þskj. 147, sem ég hefi skilað, gat fjhn. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Í þessu nál. hefi ég í stórum dráttum tekið fram, hvers vegna ég get ekki verið með, en það er fyrst og fremst vegna þess, að ég álít, að hér sé farið skakka leið í því að ná þeim gjöldum, sem bæjarsjóður þarf, með því að leggja skatt á neyzluvörur almennings og hina fátæku alþýðu og svo fjölda sjómanna og vermanna, sem á Vestmannaeyjum vinna yfir vetrartímann. Ég viðurkenni, að Vestmannaeyjar, eins og aðrir kaupstaðir, hafa þörf fyrir nýjar tekjur fram yfir það, sem verið hefir, en það er líka kunnugt, að á Alþ. hafa a. m. k. verið gerðar tilraunir til þess að bæta að nokkru leyti úr þeim þörfum, og meðan ekki er fullkomlega hægt að segja um árangurinn, sem getur orðið af því, get ég fyrir mitt leyti ekki fellt mig við, að einn kaupstaður sé tekinn út úr og honum gefin sérréttindi á gjöld og skatta, og allra sízt á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er alveg rétt, sem haldið er fram af hv. flm. frv., þm. Vestm., að það er mjög auðvelt að innheimta þessi gjöld, því að þau eru tekin af vörunum um leið og þær koma á land og þær eru fluttar út, en ég vil ekki ganga inn á, að afla þannig tekna, að það sé sem hægast að innheimta þær, heldur á að afla tekna fyrir ríkissjóð og bæjarsjóð þannig, að gjöldin komi niður á þeim, sem breiðust hafa bökin til þess að bera þau. Og þetta vörugjald er einmitt, eins og ég sagði, bæði í Vestmannaeyjum og annarsstaðar, og sérstaklega þar, lagt á nauðsynjavörur yfirleitt og fiskframleiðsluna og þess vegna hlýtur þetta gjald að koma tiltölulega þyngra niður á þeim, sem hafa fyrir stórum fjölskyldum að sjá, en hafa stopula atvinnu og lítil laun. Þessi gjöld koma þess vegna tiltölulega þyngra niður á vinnandi mönnum heldur en efnamönnunum. Innheimta gjaldsins er í raun og veru lögð á herðar kaupmanna, sem eigi að borga þetta og greiða það í bæjarsjóð, og við vitum það allir, og þurfum ekki að dylja okkur þess, að um leið og kaupmaðurinn greiðir þetta til bæjarins, vill hann taka það aftur, og hann gerir meira en það, því að hann vill líka hafa eitthvað fyrir fyrirhöfnina og það að leggja út peningana, og þess vegna þarf neytandinn að borga meira en þetta gjald. hann verður líka að borga þann skatt, sem kaupmaðurinn leggur á vörurnar fyrir áhættuna, sem hann telur sig verða fyrir af þessu og fyrir þá peninga, sem hann hefir lagt út af þessum ástæðum.

Í frv., eins og það var upphaflega, var það tekið fram, að l. skyldu þegar öðlast gildi. Ég benti á það í fjhn., og hún féllst á það, að ef frv. hefði verið samþ. án leiðréttingar, þá hefði mátt innheimta tvöfalt gjald fyrir 1938, því að það er upplýst, að Vestmannaeyjar fengu fyrir nokkru samþ. vörugjald fyrir 1938, og Vestmannaeyjar munu lengi vera búnar að hafa þetta gjald. Ein af ástæðunum, sem hv. þm. Vestm. bar fram fyrir því, að samþ. bæri þetta frv., var sá, að árið 1936 hafi Vestmannaeyjakaupstaður ekkert fengið úr Jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga. Ég vil benda hv. flm. á það, að það koma til með að gilda aðrar reglur fyrir úthlutun úr jöfnunarsjóði árið 1938 og 1939 heldur en nú gilda, þannig að tekið verður tillit til launagreiðslna til kennara og elli- og örorkubóta, svo að það getur vel komið til mála, enda þótt Vestmannaeyjakaupstaður hafi hingað til litið sem ekkert fengið, þá fái hann ríflega endurgreiðslu árin 1938 og 1939. Auk þess sem ég tel, eins og ég áðan sagði, að þessi gjöld séu ranglega lögð á bæjarbúa og á þá, sem sízt eru þess megnugir að inna þau af hendi, álít ég, að til greina geti komið mikið misrétti, þar sem Vestmannaeyjakaupstað væri ívilnað fram yfir aðra kaupstaði með því að láta hann fá þetta vörugjald og auka þar með þann hluta, sem þeim kaupstöðum ber hlutfallslega við aðra bæi úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga.

Af þessum ástæðum tel ég ekki rétt að samþ. þetta frv., og álít ég nógan tíma til þess að taka þetta til frekari athugunar, ef það sýnir sig, að þessi tekjustofn, sem bæjum er ætlaður, kemur ekki að tilætluðu gagni fyrir kaupstaðina yfirleitt. Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf sérstaklega að minnast á að sinni, en ég vil leggja áherzlu á, að frv. verði ekki samþ. og a. m. k. alis ekki gert að föstum lögum.