04.03.1938
Neðri deild: 14. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég vil taka það fram, að þetta frv. er ekki samið af stj. síldarbræðslnanna eða undirbúið af henni, heldur svo til komið, að eftir að höfnin á Raufarhöfn var athuguð síðastl. sumar, var um það talað milli mín og hreppsn. Presthólahrepps, að þetta mál skyldi undirbúið. Síðan samdi hreppsn. þetta frv., og barst það mér frá henni fyrir svo sem viku. En sökum þess, að hv. þm. Ísaf. hafði í fyrra verið með mér í að flytja málið um athugun á höfninni, taldi ég rétt að gefa honum kost á að taka þátt í flutningi þessa frv.

Hinsvegar var mér kunnugt um, að stj. síldarbræðslnanna hafði fjallað um þetta mál, og er allt gott um það að segja, ef hún vill leggja málinu lið. Ég tel því, að beinast lægi við að senda henni frv. til athugunar og umsagnar, og mælir hún þá væntanlega með málinu.

Ég held, að svo hafi verið talið á síðasta þingi, þegar rætt var um að reisa nýja síldarverksmiðju á Raufarhöfn, að þetta væri hægt að gera án verulegra hafnarbóta. En það er víst, að þessar framkvæmdir verða aðkallandi áður en langt um líður. því hefi ég og hreppsn. þarna fyrir norðan talið nauðsyn á að flytja þetta frv.

Þá verða jafnframt gerðar ráðstafanir til að safna í hafnarsjóð á staðnum. Þetta verður gert samkv. frv., ef það verður að l., en það mætti þá verða um leið, að síldarverksmiðjurnar sæju tök á því, þar sem þær hafa þarna hagsmuna að gæta, að leggja fram í bili eitthvert fé, sem þarna mætti verða til ráðstöfunar, á meðan ekki kemur framlag frá ríkissjóði. Um þau efni vænti ég alls stuðnings frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins, og vonast til, að hún greiði fyrir málinu hér á þinginu og framkvæmd þess síðar.