19.04.1938
Efri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls hér í d., að n. mundi athuga til 3. umr, brtt., sem til tals hefðu komið í n., en það var ekki fullráðið þegar n. skilaði áliti. Nú hefir n. athugað þetta á milli umr. og komizt að þeirri niðurstöðu, að hera fram brtt. á þskj. 259. Þar er lagt til, að inn í 10. gr. verði bætt 2 liðum til tekjuöflunar fyrir höfnina á Raufarhöfn.

Fyrri brtt. undir stafl. a. er um það, að af þeirri verðhækkun, sem verða kunni af hafnargerðinni á Raufarhöfn á því landi, sem að höfninni liggi, njóti höfnin nokkurra tekna, og virðist það vera mjög sanngjarn og eðlilegur tekjustofn fyrir höfnina. Hliðstætt ákvæði þessu er í l. um hafnargerð á Skagaströnd, og er það tekið sem næst óbreytt.

B-liðurinn er þess efnis, að til tekna fyrir höfnina sé heimilt að ákveða lítilsháttar gjald af afla þeirra skipa og báta, sem eiga heima á Raufarhöfn, svo og þeirra skipa og báta, sem leggja þar afla á land til sölu. Þetta ákvæði virðist vera mjög sanngjarnt, því að hafnargerðin á Raufarhöfn er gerð vegna fiskiflotans. Hún er því nokkuð sérstæð, því að flestar hafnargerðir hér á landi eru gerðar vegna verzlunarinnar; en þetta snertir mjög lítið Raufarhöfn. Þetta gjald virðist því vera í alla staði réttmætt, og það er svo lágt, að hámarkið er sett í 1%, svo að því virðist fyllilega stillt í hóf; hinsvegar gæti þetta orðið nokkur tekjuliður fyrir höfnina, og að mínu áliti mjög nauðsynlegur, vegna þess að þessi höfn getur aldrei orðið borin uppi af öðru en sjávarútveginum. Til þess að tryggja hag hafnarinnar í framtíðinni er því nauðsynlegt að setja þetta inn í l. um hafnargerð á Þórshöfn, sem afgr. voru frá síðasta eða næstsíðasta þingi, en sá munur einn er þar á, að hér er hundraðshlutinn 1%, en á Þórshöfn 2%.

Ég skal geta þess, að einn nm. var með nokkurn fyrirvara um b-liðinn, og ef honum finnst ástæða til, þá gerir hann grein fyrir því, en um fyrri liðinn er n. alveg sammála.

Ég sé svo ekki ástæðu til að láta þessum brtt. fylgja fleiri orð frá n. hálfu.