29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

Finnur Jónsson:

Við höfum flutt brtt. við frv. í meiri hl. sjútvn ., vegna þess að í hv. Ed. hafa verið gerðar tvær breyt. á frv., sem við teljum okkur ekki geta fallizt á. Brtt. okkar er á þskj. 334, og miða að því að fella niður tölul. 2 í 10. gr. eins og frv. kom frá Ed. Er liðurinn um það, að helmingur hækkunar af lóðaleigu þeirrar jarðar, er að höfninni liggur, og allt að 3/5 hlutum lóðargjalda nýrra lóða skuli ganga til að standa straum af dýpkun hafnarinnar og byggingu og viðhaldi hafnarmannvirkja. Nú á ríkið allt landið kringum höfnina og jörðina sjálfa, sem Raufarhöfn stendur á, og virðist því óeðlilegt að fara að gefa hafnarsjóði Raufarhafnar þá verðhækkun, sem verður eingöngu vegna framkvæmda ríkissjóðs. Það eru nokkrir staðir hér á landi, þar sem líkt stendur á, að ríkissjóður á mestan hluta lóðanna, eins og á Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Það væri sjálfsagt erfitt að standa á móti því, að þeir kaupstaðir fengju þá verðhækkun, sem orðið hefir þar á lóðum, ef tekin væri upp sú regla þar, sem byggðar eru hafnir á landi ríkissjóðs, að verðhækkunin yfirleitt gangi til hafnarinnar.

Seinni liður brtt. fer fram á, að felldur verði niður f-liður 3. tölul. 10. gr., um það, að allt að 1% af magni afla skipa og báta, sem heima eiga í kauptúninu, svo og allra þeirra skipa og báta, sem leggja þar afla á land til sölu, megi taka til útgjalda hafnarinnar. Það er að vísu fordæmi fyrir þessu í nokkrum hafnarlögum, en þó aðallega þar, sem ekki er gert ráð fyrir neinum verulegum starfrekstri. Undantekning frá þessu er þó á Akranesi. En þar hefir þessi heimild aldrei verið notuð.

Það er þegar búið að samþ. að byggja allstóra verksmiðju á Raufarhöfn. Má því gera ráð fyrir, að þegar sú verksmiðjubygging er komin í framkvæmd — en sjálfsagt ekki fyrr — verði ráðizt í hafnarbætur. Og þá er alveg víst, að með þeim tekjustofnum, sem höfninni er heimilt að hafa samkv. 10. gr., getur höfnin haft nógar tekjur til að standa straum af kostnaði hafnarframkvæmdanna. Það er að sjálfsögðu ætlun Alþingis að búa svo að þessari hafnargerð eins og öðrum hafnargerðum, að hún hafi nægar tekjur til að standa straum af hafnarmannvirkjunum. En hinsvegar er ekki ætlunin, að hafnarsjóður sé sérstök féþúfa fyrir viðkomandi sveitarsjóði. Þess vegna hefir meiri hl. sjútvn. lagt til, að þetta félli úr aftur, sem hv. Ed. bætti inn í.