29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

1. mál, fjárlög 1940

*Magnús Jónsson:

Ég bar ásamt tveimur öðrum fram brtt., sem eru á þskj. 637. Það þarf ekki að fara um þær mörgum orðum, þær eru ekki stærri en það, að þær myndu kosta ríkissjóð til samans 700–800 kr. á ári. Önnur brtt. er flutt af mér einum, 17. brtt. á þskj. 637, og er um það, að veita Þorkeli Þorlákssyni 1000 kr. Fjvn. hafði flutt í sínum brtt. till. um, að honum yrðu veittar 600 kr., svo hér er aðeins um 400 kr. hækkun að ræða í minni brtt. Þessi starfsmaður er flestum þm. það kunnur, að engin ástæða er til að lýsa honum eða starfi hans, sem hefir aflað honum ágæts orðstírs, þó goldið hafi verið með mjög lágum launum. Eftir langa þjónustu fær hann úr lífeyrissjóði aðeins 1100 –1200 kr. Það er lítið til þess að lifa af, og ekki meira en svo, að hann geti komizt af með það, en hann væri dálitlu nær, ef mín brtt. yrði samþ., þannig að hann hefði 100 kr. á mánuði með dýrtíðaruppbótinni. — Ég þykist viss um, að þessi till. hljóti samþ. hv. þm.

Hin till., sem ég flyt ásamt hv. 2. landsk. og hv. 1. þm. Árn., er um að veita Samúel Eggertssyni kennara ofurlítinn styrk í notum þess, hversu hann hefir lengi unnið að starfi sinu, er hann nú lætur af fyrir aldurssakir, án þess að fá nokkurn lífeyri eða nokkurn styrk af opinberu fé á nokkurn hátt. Ég skal ekki fara langt út í það að lýsa þessum manni, — hann er sjálfsagt flestöllum þm. kunnur. Hann hefir stundað kennslu víða, hingað og þangað um Vesturland og síðan um mörg ár í Reykjavík, bæði einkakennslu og í skólum. Liggur hér fyrir frá honum skýrsla um þessa kennslu. Það er nú einu sinni einn þátturinn í eðli þessa manns, hve frábærilega sýnt honum er um að halda öllum sínum skjölum í röð og reglu, setja ýms atriði í töfluform og gera þau ljós. Hann gerir hér skrá um það, hversu víða hann hefir kennt, hve margar stundir, hve marga nemendur hann hefir haft o. s. frv. Ef þessi maður hefði stundað kennslu við einhvern opinberan skóla að staðaldri, þá hefði hann nú haft eitthvað fyrir sig að leggja, þegar aldurinn færist yfir. En þar sem kennsla hans hefir mest öll verið einkakennsla, þá er ekki því að heilsa, og því getur eigi talizt ósanngjarnt, að hann njóti nokkurs opinbers styrks nú. Risið á þessari till. er nú ekki hærra en 250 kr. á ári, sem með dýrtíðaruppbót myndi verða rétt yfir 300 kr. — Samúel er ágætur skrautritari og hefir gert ýmsa uppdrætti og myndir. Hann hefir safnað miklum fróðleik, sem hann á í fórum sínum, en sérstaklega er honum sýnt um að setja ýms hagfræðileg atriði ljóslega fram í táknmyndum og línuritum. Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en fel þessa litlu till. velvilja hv. þm.

Hvorug þessara brtt. minna er þannig, að hún hafi nokkur áhrif á fjárhag ríkisins eða geti til stórmála talizt. Þm. geta því tekið afstöðu til þeirra beggja rétt eftir sinni persónulegu skoðun á því, hvort þetta sé í raun og veru rétt eða rangt, án þess að tengja afgreiðslu till. meðferð annara mála þingsins.

Ég skal ekki fara að blanda mér inn í hin stærri mál, og það þótt ýmsar till. séu fram komnar, sem ég gjarnan vildi leggja orð í belg um, en umr. verða sennilega nógu langar, þótt ég sleppi því að mestu. En þó eru 1–2 atriði, sem ég kemst ekki hjá að minnast á. Það kemur í huga minn sem gamals yfirskoðunarmanns landsreikningsins, þegar ég sé, að aftur á nú að ganga inn á þá braut að veita greiðsluheimildir fyrir ríkisstj., án þess að upphæð sé tekin inn í sjálfa útgjaldaliði fjár)., hve óheppilegt slíkt fyrirkomulag er. Þessu var að mestu leyti hætt um tíma, og er því að mínum dómi mjög skökk stefna að taka þetta nú upp að nýju. Einnig er það, að þingið rennir eiginlega alltaf blint í sjóinn, þegar slíkar till. eru samþ. Mönnum finnst ábyrgðin ekki hvíla eins þungt á sér sjálfum, þegar fyrirkomulag útgjaldanna er þannig, að þetta er falið ríkisstj. Þetta fyrirkomulag hvetur því miklu meira til ógætni í meðferð fjármála heldur en að ákveða beinar fjárhæðir til eins og annars. Þessu má líkja við það, hve menn eru stundum ákafir í að kaupa á uppboðum, af því að ekki þarf að borga strax. Alþ. á ekki að víkjast undan þeirri ábyrgð að segja sjálft til um þær fjárhæðir, sem það ætlast til, að greiddar séu. Slíkar heimildir eru alltaf þannig, að alþm. vita í raun og veru ekki hvað það er, sem þeir eru að samþ. Ég get að vísu viðurkennt, að réttmætt sé að veita heimildir fyrir ríkisstj. til að greiða eitt og annað, en þá helzt eingöngu í þeim tilfellum, að alveg ákveðnum skilyrðum beri að fullnægja áður en greiðsla getur farið fram; en vitanlega mætti alveg eins setja aths. í slíkum tilfellum við fjárveitinguna sjálfa. Góð fjármálastjórn ætti að stefna að því, að fjárlög og landsreikningur yrðu í sem mestu samræmi. Alþ. er með svona heimildum beinlínis að gefa undir fótinn með, að það sé ekki nauðsynlegt. Það er erfitt fyrir mig að taka afstöðu til till., sem bornar eru fram í þessu formi, því að í sjálfu sér þarf maður ekki að vera á móti till. efnislega, ef fé væri aðeins veitt í öðru formi.

till., sem ég m. a. ætlaði að minnast á, þegar ég kvaddi mér hljóðs, hefir verið mikið rædd síðan, og get ég því sparað mér ýmislegt af því, sem ég annars vildi sagt hafa. — En þessi till. er um það, að síldarverksmiðjur ríkisins veiti nokkurt fé til að létta undir með ríkissjóði með vegagerðir á tveimur stöðum á landinu. Ég er yfirleitt á móti þessum till., þar sem ekki hefir verið hægt að benda á, að verksmiðjurnar hefðu þetta fé handbært, en algerð fjarstæða að láta síldarverksmiðjurnar fara að taka lán til að leggja í vegagerðir. Verksmiðjurnar þyrftu síðan að standa straum af vöxtum þessa láns, en ættu aftur að láta ríkissjóði það vaxtalaust í té. Ég vil bara vekja athygli á því, hvernig litið myndi verða á slíka ráðsmennsku hjá lánardrottnum landsins erlendis, — þótt hinir, íslenzku kippi sér ekki upp við allt. Þeir þekkja Alþ. og vita, að það á skilið fullt traust. En í augum útlendra manna, sem ekkert þekkja til, horfir þetta eðlilega öðruvísi við. Nú skulum við segja, að fyrirtækið, sem hér er um að ræða, þurfi ekki á styrk erlendra lánardrottna að halda, — en hvernig verður litið á það almennt hjá mönnum, sem lána fé til íslenzkra fyrirtækja, að Alþ. leggi einstökum fyrirtækjum alveg sérstakar byrðar á herðar, sem eru rekstri þeirra alveg óviðkomandi? Ég held, að þetta geti verið mjög varhugavert, og álít, að við ættum ekki að gera neitt viljandi, sem varpar skugga á lánstraust okkar erlendis. Ég skal ekki fara langt út í það, hvort þessir vegir til Raufarhafnar og Siglufjarðar heyra eiginlega verksmiðjunum til á nokkurn hátt, en ég vil bara geta þess, að ég hefi ekki orðið var við, að slíkir vegir væru teknir með í kostnaðaráætlun verksmiðjanna, en það væri þá sannarlega ekki gætileg áætlun, þar sem gleymzt hefði að gera ráð fyrir nokkurra kílómetra vegum, sem í rann og veru tilheyrðu þessum stofnunum. Ég held, að það hafi komið fram hjá 2 hv. þm., að hér bæri aðallega að líta á siðferðislegu hlið málsins, — láta allan fjárhag „fokka“. Það ætti nú vegna stöðu minnar að koma sérstaklega sárt við mig, ef brotin væri einhver siðferðisskylda af hálfu Alþ. með því að samþ. ekki þessa vegagerð. Ja, öðruvísi mér áður brá. Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum árum ætlaði allt vitlaust að verða út af því, að allir vildu fá að reisa þessar síldarverksmiðjur hjá sér, — allir firðir frá Látrabjargi að Eystra-Horni, allir vildu fá að hafa síldarbræðslurnar. Húnaflói, Vestfirðir, Norðurland og Austfirðir, allir rifust um að fá síldarverksmiðjurnar til sín. Og nú á Alþ. að vera siðferðislega skuldbundið til að leggja veg frá Siglufirði upp í sveit til þess að reyna að bæta eitthvað úr því siðleysisböli, sem ríkið hafi stofnað til á þessum stað! Nei, ég verð að segja það, að svona rök duga ekki. Siglufjörður sótti vitanlega fast eins og aðrir að fá þessar verksmiðjur, vegna þeirra miklu framkvæmda og athafnalífs, sem um þær skapaðist, og ríkið hefir enga yfirbót að gera í því sambandi. Þá kemur annað siðferðisatriði, og það er blessað fólkið, sem vinnur þarna, — það fer svo illa um það í landi, — þessi ólykt og reykur — allt afarskaðlegt fyrir siðferðið! Það þarf að koma fólkinu burt við og við, koma því upp í sveit. Ef ég verð sannfærður um þetta atriði, þá fer ég að hugsa mig tvisvar um réttmæti þess, að láta skólapilta fá sérstakan forgangsrétt að þessum spillingarstöðum, eins og nýlega hefir verið samþ. hér. Það ætti þó að vera sérstaklega hættulegt að setja þá menn til vinnu á svona stað, sem eiga eftir að komast í vegleg embætti í þjóðfélaginu og verða þar að einhverju leyti leiðandi menn. Ég greiddi atkv. með því, að skólapiltar fengju þarna forréttindi til vinnu, satt að segja af því, að mér er ekki ljós þessi siðspillingarvoði í sambandi við síldarverksmiðjurnar. — Ég er að sjálfsögðu með þessum samgöngubótum út af fyrir sig, — mikil ósköp, — ef við bara getum risið undir þeim. Reyndar er þegar hafin vegagerð á Siglufjarðarskarði. Það er vitanlega æskilegt að tengja hérað eins og Skagafjörð við Siglufjarðarkaupstað með akvegi. Ég mótmæli því alls ekki. En ég hefi enga trú á því, að bilferðir frá Siglufirði til Skagafjarðar myndu bæta siðferðið. Sumir eru nú þannig gerðir, þótt þeir séu kallaðir mestu reglumenn, að ef þeir ætla í bílferð, þá má áfengi alls ekki vanta. — Mér finnst satt að segja afarvarhugavert að leggja byrðar á einstök fyrirtæki til að standast kostnað við svona verk. Slíkt eru einungis sjúkdómseinkenni, — einkenni þess, að búið er að hlaða of miklum útgjöldum á ríkissjóðinn og farið er að leita allra bragða til að geta haldið áfram.

Svo er það ein till. hér, sem ég vildi leggja lið, þótt hún sé í óaðgengilegu formi, þ. e. a. s. heimild í 22. gr. Till. er um það, að setja þjóðleikhúskjallarann þannig í lag, að unnt sé að flytja þangað muni þjóðminjasafnsins. Það er illt, að þjóðleikhúsið skuli standa í því ástandi, sem það nú er, þótt ég auðvitað fallist á, að ekki sé um slíkt að fást meðan menn geta ekki einu sinni byggt yfir sig nauðsynleg íbúðarhús eða hús til atvinnurekstrar, en það er einungis vegna þjóðminjasafnsins, sem ég vildi styðja þessa till. Ef hún fæst ekki samþ., finnst mér eiginlega réttast að skora á stj. að láta pakka þjóðminjagripunum inn og geyma þá einhverstaðar á alveg öruggum stað. Það er alveg hræðilegt til þess að vita, að aðrir eins dýrgripir og þar eru saman komnir skuli, ef illa fer, geta gereyðilagzt á svipstundu. Það er ekkert annað en hundaheppni og slympilukka, að núverandi ástand í þessum efnum veldur ekki tjóni. Hér er alls ekki um þau verðmæti að ræða, sem unnt er að afla á ný. Útlendingar, sem hingað koma, sjá margt betur en við sjálfir, t. d. áleit Haakon Schetelig, að í okkar þjóðminjasafni væru meiri dýrgripir en nokkurn mann hefði grunað. Mönnum, sem skoðað hafa mörg söfn erlendis, finnst þetta, sem þarna er hrúgað saman, vera nægilegt til að fylla stóra byggingu. Nú liggur þetta uppi á lofti undir timburþaki, rétt hjá talsvert mikilli húsaþyrpingu, nógu mikilli til þess, að ef eldur kæmi upp á þessum slóðum, þá er ekkert líklegra en að safnið eyðilegðist. Því að þótt einhverjum munum mætti nú bjarga, þá eru þeir ekki í því ástandi, að þeir þoli að sæta harkalegri meðferð. Ég álít sjálfsagt að flytja safnið burtu, en af því að þessi till. kemur fram sem heimild fyrir ríkisstjórnina, þá verður mikið stríð hjá mér milli holdsins og andans um hana.