29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

1. mál, fjárlög 1940

*Sveinbjörn Högnason:

Ég á hér eina brtt. á þskj. 619, sem ég flyt ásamt hv. þm. V.-Sk. Till. er um það, að veita 3 þús. kr. styrk til Einars Sverrissonar í Kaldrananesi, til vélaverkstæðis. Maður þessi er fátækur bóndi austur í Mýrdal. sem hefir sýnt mikið hugvit og hagleik með smiði ýmissa verkfæra. Hann hefir fundið upp nýja gerð rakstrartækja við sláttuvélar, sem er orðin mjög útbreidd þar eystra, og er talið, að það séu hin beztu tæki, sem notuð hafa verið þar til þessa. Það er orðin það mikil eftirspurn eftir þessum tækjum hans, að hann getur ekki fullnægt öllum eftirspurnum, sem hafa komið til hans um þessi tæki, m. a. vegna þess, hve ófullkomin verkfæri hann hefir. Ég held, að það væri mjög æskilegt, að slíkur iðnaður, sem þessi maður annast á verkstæði sínu, komist á sem víðast í sveitunum. Ég vildi því eindregið mælast til þess, að Alþingi sæi sér fært að veita þennan lítilfjörlega styrk þessum fátæka bónda, svo að hann geti fullkomnað verkfæri sín og haldið uppi viðgerðum á vélum, sem notaðar eru til landbúnaðarins.

Ég skal svo ekki tefja tímann lengur, en vona að það verði litið á þetta mál með fullri sanngirni.