03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Vér þætti ekki undarlegt, þótt einhverjir af þeim þm., sem samkv. upplýsingum hv. þm. A.-Húnv. hafa 10 þús. kr. árslaun, færu út á meðan ég flyt ræðu mína, því að ég ætla að reikna út, hvað þeir gera fyrir sjálfa sig í þessu máll og hvað fyrir verkamennina. Verkamenn, sem hafa 2 þús. kr. árslaun, t. d. Dagsbrúnartaxta, og hafa vinnu annanhvern dag allt árið, fá eftir þessari brtt. 9% hækkun, eða 180 kr. á ári. Ef verkamenn hafa nú vinnu 50% oftar og fá 3000 kr. laun, þá nemur árlega uppbótin 270 kr., — 3270 kr. verða þá laun þess verkamanns samtals eftir árið. Verkamaður, sem vinnur hvern einasta dag ársins og fær í kaup 4000 kr., getur fengið 360 kr. kauphækkun, eða alls 4360 kr. árslaun. Þetta eru þá þau allra beztu laun, sem komið getur til mála, að nokkur verkamaður fái, ef hann vinnur hvern einasta dag ársins. Nú skulum við athuga, hvað þeir fá, sem hafa í föst laun 10–30 þús. kr. á ári. Eftir brtt. fjhn. er heimilt fyrir stofnanir, sem þessir menn vinna hjá, að hækka einnig þeirra kaup. Áður var það bundið samkv. gengislögunum frá í vor. Ef við tökum t. d. forstjóra SÍF eða bankastjórana, þá myndu þeir koma undir 1. gr. 6. lið, 3. fl. Ef vísitalan hækkar um 12 stig, þá er hækkun sú, sem þessir menn í 3. fl. mega verða aðnjótandi, þ. e. a. s. þeir, sem hafa meira en 2 kr. á tímann, 6,l%. Menn með 10 þús. kr. árslaun og 8 stunda vinnudag, sem svarar til 4 kr. á klukkustund, fengju því 600 kr. kaupuppbót á ári. Verkamenn, sem telja sig tiltölulega heppna með vinnu og vinna annanhvern dag, fá 180 kr. Mennirnir með 10 þús. kr. fá 600 kr., eða rúmlega þrefalt á við verkamanninn. Hafi viðkomandi maður 18 þús. kr. árslaun, eða 6 kr. á klukkustund, þá mega laun hans hækka úr 18 þús. í rúmlega 19 þús. kr. Hálaunamennirnir mega fá sitt. kaup hækkað um 1000 kr., eða rúmlega það, en verkamenn með 2 þús. kr. árslaun geta látið sér nægja 180 kr. ársuppbót. Þetta er þá réttlætið. — Nú kunna sumir að álykta sem svo, að það sé afarólíklegt, að menn með 10 þús. kr. laun og þar yfir fari fram á að fá þau hækkuð. Já, menn kynnu nú að halda þetta eftir því, hvernig daglega er prédikað í blöðunum, og eftir þeirri reglu, sem sett var fram í haust, að eitt skyldi yfir alla ganga. En þegar við rifjum upp staðreyndir í þessum málum, þá minnumst við þess, að þegar skipaðir voru bankastjórar við Útvegsbankann fyrir nokkru, þá var álitið bráðnauðsynlegt að hækka laun þessara veslings manna um 4–5 þús. kr. á ári. Það eru ekki heldur nema 1–2 dagar síðan það var fellt í Ed. að banna togaraútgerðarfélögum að greiða starfsmönnum sinum hærri árslaun en 10 þús. kr. Og fjárlögin voru nýlega afgreidd á þann hátt, að maður, sem hefir 60 þús. kr. árslaun, var hækkaður upp í 75 þús. kr. Menn, sem hafa hér í Reykjavík um 6–7 þús. kr. föst laun, eins og þeir, sem settir eru í niðurjöfnunarnefnd, fá 2 þús. kr. aukabitling fyrir það. Þessi bitlingur var hækkaður nálega tvöfalt núna. Mennirnir, sem hafa hæst laun, eru frekastir í að láta hækka þau enn meira. Það dettur engum í hug, að mennirnir með 10 þús. kr. launin færu af tillitssemi til sinnar ástkæru þjóðar að neita sér um launahækkun. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að launamennirnir á Alþ. hafa afnumið skorðurnar, sem þeim voru settar við hækkun launa. Þeir stilla svo til, að þeir fái sjálfir þetta 3- og 5-faldar uppbætur á við verkamennina. Það er vitanlegt eftir upplýsingum hv. þm. A.-Húnv., að 30 alþm. hafa 10 þús. kr. árslaun og þar yfir. Það er því skiljanlegt, að þeir standi fast með sínum stéttarbræðrum. Það hefði því verið heppilegra að öllu leyti fyrir verkalýðinn, að gengislögin frá í vor, jafnbölvuð og þau voru, hefðu fengið að haldast óbreytt, heldur en að láta nú allt verða skorið við neglur, sem verkamenn eiga að fá, en hálaunamenn gleypa sífellt hærri laun. Til þess að geta framfleytt 5 manna fjölskyldu í Reykjavík þarf 4–5 þús. kr. Það er vitanlegt, að meiri hluti verkamanna í Reykjavík lifir á hinu svokallaða hungurstigi, þ. e. hefir laun undir því lágmarki, sem þarf til að skorta ekki nauðsynjar. Þessum mönnum á til viðbótar við 2 þús. kr. árslaun að skammta 180 kr., meðan þeir, sem hafa tíu til tuttugu verkamannslaun, fá í ársuppbætur sem svarar hálfum eða heilum verkamannslaunum í Reykjavík. Þetta er það, sem þjóðstjórnin kallar að láta eitt yfir alla ganga. Þetta er framkvæmdin á hinum hjartnæmu skrifum þjóðstjórnarblaðanna, Morgunblaðsins, Alþýðublaðsins, Tímans og Vísis síðastl. haust. — Ég býst ekki við, að neinn af 10 þúsund króna mönnunum hér á þingi fari að róta við sér fyrir þessu. Þeir eru ekki vanir að hrökkva við, þótt þeim sé ljóst, að verið sé að fremja óréttlæti, og það er rétt, að verkalýðurinn og allur almenningur í landinu fái að vita, þótt ekki sé nema í gegnum þingtíðindin, hvaða afstöðu 10 þús. kr. mennirnir taka til þeirrar skömmtunar annarsvegar, sem framkvæma á gagnvart verkalýðnum, og hinsvegar hvernig þeir skammta sjálfum sér launin. Ég leyfi mér ásamt hv. 4. landsk. að bera fram brtt. við brtt. á þskj. 673, svo hljóðandi: Við 3. b. bætist á eftir 1. málsgr. svo hljóðandi málsl.: Þó má eigi hækka kaup þeirra manna, sem þegar hafa 10000 kr. eða meira í árslaun.

Hv. þm., sem flestir hafa þetta há laun, fá með þessu ágætt tækifæri til þess að sýna, hverskonar réttlæti það er, sem þeir berjast fyrir. Ég geri nú ráð fyrir, að flestir 10 þús. kr. mennirnir séu nú farnir út, og sný mér þess vegna að öðru.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að verkamönnum riði á öðru meira en hækkuðu kaupi, þeir þyrftu fyrst og fremst aukna atvinnu. Það er alveg rétt, að verkalýðnum riður mikið á því að fá aukna atvinnu, en til þess að tryggja það, að atvinnan aukist hér á landi fyrir verkamenn, þarf fyrst og fremst að tryggja það, að valdaklíkan, sem nú stjórnar landinu, fari ekki með völd framvegis. Bankastjóraklíkan hefir hingað til staðið í vegi fyrir aukningu atvinnunnar. Má nefna, hvernig framkoma þessara manna og skuldakónganna er gagnvart verkalýðnum, — hve oft t. d. Kveldúlfur hefir stöðvað rekstur togara sinna til þess að hafa áhrif á pólitískar aðgerðir í landinu. Það er vitanlegt, að aukning atvinnunnar fæst fyrst og fremst þegar þessum mönnum er steypt af stóli. Það hefir einnig sýnt sig í sambandi við síldarbræðslurnar, hvernig einn einasti hringur er búinn að læsa þar klónum um alla hluti. Það hefir einnig sýnt sig — í sambandi við togaraútgerðina —, hve ófærir þeir menn eru til síns starfs, sem veitt hafa þeim málum forstöðu. Þjóðin hefir lagt stórfé í hendur þessara manna, en á sama tíma, sem skrautbyggingar forstjóranna hafa rísið upp, ganga togararnir úr sér og fúna niður. Það hefir ekki verið um það hirt að auka atvinnuna í landinu. Það stendur ekki á verkamönnunum að vinna, og það stendur ekki á þeim bæjarfélögum, sem þeir ráða yfir eða hafa áhrif á. En það stendur á ríkisvaldinu, sem heldur öllu í þeim heljargreipum, sem Kveldúlfur hefir spennt um alla hluti á sviði framleiðslunnar.

Hv. þm. A.-Húnv. hefir flutt brtt. við 2. brtt. fjhn., þar sem farið er fram á, að þeir starfsmenn ríkisins, sem hafa 5 þús. kr. árslaun og þar yfir, skuli enga dýrtíðaruppbót fá. Ég verð að segja það, að meðan ekki eru settar neinar skorður við því, að þeir, sem hafa 10 þús. kr. laun og meira, hækki sitt kaup, þá nær ekki nokkurri átt að setja slík ákvæði gagnvart starfsmönnum ríkisins. Meinið í ríkisrekstrinum liggur ekki í því, að menn hafi í laun 5–6 þús. kr. á ári. Ég vil taka það fram, að margir starfsmenn hins opinbera, t. d. barnakennarar, ná alls ekki þessari launahæð, nema þá einstaka. Spillingin í launagreiðslum hins opinbera er ekki á þessu sviði, heldur í greiðslu hálaunanna og hinu, að gjalda stórfelldar aukagreiðslur ofan á há laun. Á því kýli þarf að stinga. Ég er því eins og sakir standa á móti þessari till., á meðan ekki er komið í veg fyrir gífurlegar uppbætur til þeirra, sem taka miklu hærri laun, t. d. forstjóra fiskhringsins, bankastjóra o. s. frv. Hinsvegar get ég verið með þessari till. hv. þm. A.-Húnv., ef eitthvert launahámark væri sett í l.

Viðvíkjandi brtt. 684, þar sem farið er fram á að gefa ríkisstj. heimild til að ákveða í reglugerð kaupuppbót embættismanna ríkisins, vil ég benda á það, að Alþ. hefir í sínum höndum fjárveitingavaldið, og það vald hefir frá upphafi verið talinn veigamesti þátturinn í valdi þess. Fjárlögin okkar eru komin upp undir 20 millj. kr. Af þeim eru beinar launagreiðslur milli 5–6 millj., en auk þess eru aðrar 5 millj., sem óbeint eru greiddar í laun við ýmiskonar starfrækslu ríkisins. Þannig er í höndum Alþ. vald yfir 10 millj. kr. launagreiðslum, eða sem nemur helmingi fjárlagaupphæðarinnar. Ef ríkisstj. er gefin heimild til að ákveða uppbót á laun embættis- og starfsmanna hins opinbera, þá nær sú heimild a. m. k. til ¼ hluta af upphæð fjárlaganna. Það er ekki ljóst af orðalaginu, hve mikið fer til verkamanna, sem vinna í þjónustu ríkisins, en að öllum líkindum myndu þeir þó koma undir sjálf almennu ákvæðin í brtt. frá fjhn., þannig að ríkisstj. myndi ekki geta ráðið við þeirra laun. En setjum svo, að allir venjulegir starfsmenn ríkisins féllu undir þetta reglugerðarákvæði, þá væri allt of mikið vald lagt í hendur ríkisstj. Það má þó gera ráð fyrir, að Alþ. taki nokkurt tillit til vilja þessara manna sjálfra, en ríkisstj. myndi hinsvegar ekki gera það. Hún er beinlínis þeirra yfirboðari og getur fyrirskipað það, sem henni þóknast, gagnvart þessu fólki. Það stendur meira að segja fyrir dyrum, að við ýmsar stofnanir verði nú um áramótin ráðið starfsfólk að nýju, og er allt of mikið vald lagt í hendur ríkisstj. með því að fela henni að ákveða kjör allra þessara starfsmanna. Hitt skal játað, að þessi till. er í samræmi við þær einræðistilhneigingar, sem fram hafa komið í blöðum ríkisstj. Morgunblaðið lét í ljós þá skoðun áður en þing kom saman, að það ætti aðeins að starfa nokkra daga, en fela ríkisstj. víðtækt vald til athafna, og þá auðvitað til að gefa út l. um hvað eina eftir geðþótta. Það átti því að fela ríkisstj. einskonar einræðisvald og afsala valdinu úr höndum Alþ. Slíkt er alveg sérstaklega hættulegt, þegar eins er ástatt um ríkisvaldið og nú er. Ég hefi áður rakið það, að íslenzka ríkisvaldið hefir meiri áhrif á launagreiðslur en nokkurt annað ríkisvald, sem mér er kunnugt um í nágrannalöndunum. Það ræður meiru um afkomu launþeganna en nokkurt ríkisvald á Norðurlöndum og Englandi. Hættan á því, að ríkisstj. misnoti þetta vald sitt, er því sérstaklega mikil, þar sem það hefir sýnt sig, að ríkisstj. leggur alveg sérstaklega mikið kapp á að ofsækja menn í ákveðnum pólitískum flokki og útiloka þá frá störfum eftir föngum. Það er því ekki ólíklegt, að ríkisstj., sem þannig beitir pólitískri kúgun, myndi notfæra sér á sama hátt réttinn til að ákveða starfsmönnum launauppbætur. Ég er alveg á móti þessari till. fjhn. og tel Alþ. á engan hátt ofvaxið að ganga svo sjálft frá launamálunum, að ekki þurfi þar nein reglugerðarákvæði um. En hv. þm. virðast vera alveg sérstaklega hræddir við að minnast á launamál. Síðan hæstv. forseti þessarar d. (JörB) sat í launamálanefnd árið 1933, að mig minnir, og lagði þar fram góðar till., hafa þm. verið svo hræddir við, að hægt væri að spara 700 þús. kr. í launagreiðslum, að ekki hefir verið á málið minnzt. Það er eins og hver einasta till. um þetta mál setji allt í uppnám hér á þingi, og liggur við, að stjórnir falli unnvörpum, ef þessu máli er hreyft. Það hefði því verið afarnauðsynlegt fyrir Alþ. að taka rögg á sig og horfast nú í augu við þennan draug. En það virðist nú eftir þessari till., að enn einu sinni eigi að stýra þeim málum sem lengst út úr þinginu og láta ríkisstj. eina um þau fjalla.

Þá vil ég að síðustu aðeins draga saman þá afstöðu valdastéttarinnar hér á Íslandi, sem kemur fram hér í þessum breyt., sem fyrir liggja. Hún er sú, að hér er sérstaklega um að ræða hækkun á launum hjá hátt launuðum mönnum; er hækkunin á þeirra launum margföld á við það, sem verkamenn geta fengið, og meiri gróði af útflutningnum heldur en fengizt hefir um langan tíma. Þessi sama valdastétt, sem skapar sér hækkuð hálaun og gróða, ætlar að skapa verkalýðnum í landinu raunverulega lækkuð láglaun, þ. e. a. s. sjá til þess, að þessi láglaun fái hvergi að hækka í hlutfalli við aukna dýrtíð í landinu, og skapa verkalýðnum áframhaldandi hungurstilveru, — kjör, þar sem skortir ýmislegt það nauðsynlegasta til þess að draga fram lífið. Og það er ekkert undarlegt, að valdastétt, sem lætur svona eitt yfir alla ganga, heimti vinnufrið í þjóðfélaginu. Það er sannarlega ekki að undra um menn, sem hafa yfir 10 þús. kr. í laun, en vilja ekki, að sjómenn fái sanngjarna uppbót á síldarverðið, en stilla svo til, að sjómenn og verkamenn fái aldrei hækkun, sem nemur dýrtíðinni, — það er sannarlega ekki undarlegt, þó slíkir menn, sem lifa örugglega við góð kjör í þjóðfélaginu á kostnað ríkis og þjóðar, heimti frið með sitt, svo að þeir geti lifað áfram í vellystingum praktuglega. En verkalýðinn á að svipta möguleikum til þess að halda a. m. k. þannig í, að ekki fari raunverulega versnandi hans afkoma. En þegar þannig l. eru sett, þar sem valdastéttin gengur svona bert fram frá sínu eigin hagsmunasjónarmiði, þá er það fullkomin hræsni, að menn tala um, að eitt eigi yfir alla að ganga, og þegar talað er um, að það þurfi að skapa réttlæti í þjóðfélaginu. En því réttlæti lofaði þjóðstjórnin, þegar hún var sett.