08.03.1939
Neðri deild: 15. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

25. mál, ostrurækt

*Pétur Ottesen:

Mér þykir ákaflega gott að hafa getað leitt hér fram svo greinilega þann

tvískinnung, sem alveg óhjákvæmilega virðist hafa verið hér á flutningi þessa máls. Í frv. eru ekki tiltekin nein svæði, sem vafasamt er, hvort ekki hefði átt að vera, þar sem viss svæði þykja tiltækilegri en önnur fyrir þessar tilraunir. En þegar tekið er tillit til þess, að það er ekkert um þetta í frv., og hinsvegar litið á Bréfið frá leyfisbeiðendum, sem þeir hafa skrifað um þetta efni, þá hygg ég það staðfesti þann tvískinnung, sem í þessu máli er. Í þessu bréfi er tekið greinilega fram, að sá fjörður eða flói, sem slíkar tilraunir verði gerðar í, verði algerlega friðaður fyrir öðrum veiðum. Svo kemur hv. þm. 9k. og segir, að það sé alls ekki meining þessa sama félags, og líka sé það óþarfi að friða nema viss svæði. Ég veit ekki, hvaða sérþekkingu hv. þm. Ak. hefir á veiðiskap yfirleitt, en mér þykir ótrúlegt, að hann hafi hana á slíkum veiðiskap, þar sem þessi veiðiskapur er ekki til hér við land og ostrur ekki til hér, og verður að flytja þær hingað í kössum. Með allri virðingu fyrir þekkingu hv. þm. Ak. verð ég frá mínu leikmannssjónarmiði að álita, að leyfisbeiðendur þessa félags, sem hafa í þjónustu sinni fagmenn á þessu sviði, séu færari að dæma um; hve viðtæka friðun þurfi til þess að geta stundað slíkar tilraunir. Ef það væri meiningin að framkvæma þessar tilraunir með ostrurækt í Hvalfirði og banna þar alla aðra veiði, nær það auðvitað ekki nokkurri átt að leyfa slíkt. Og sama máli gegnir um Kollafjörð. Þótt hv. þm. Ak. væri að telja upp 15 voga og víkur við Faxaflóa, eru þær allar við Hvalfjörð og Kollafjörð.

Ég hefi talað við Árna Friðríksson fiskifræðing um þetta mál. Hefir hann látið þá skoðun í ljós, að hann væri í vafa um, hvort hitastig sjávarins væri nægilegt til þess að hægt væri að rækta hér ostrur, og fer þá heldur fátt að mæla með því að leggja út í slíka óvissu og eyðileggja alla aðra veiði á þessum stöðum.

Ég býst við að bera fram brtt. fyrir 3. umr. Mér finnst það væri viðkunnanlegra að taka það fram í frv., hver eigi að borga skaðabæturnar. Mér skilst, að þótt ekki ætti nema að taka annan þessara fjarða til tilrauna til ostruræktar og banna þar alian annan veiðiskap, og jafnvel þó að það væri ekki nema viss svæði, gæti það orðið töluverð upphæð.

Félagið mun hafa búið svo vel um hnútana, að þegar þessi 15 ár eru liðin, eigi þeir að fara frá skaðlausir, þannig, að viðtakandi á að borga allan tilkostnað, og ekki einasta það, heldur líka fyrir þá væntanlegu hagsmuni, sem landsmenn kynnu að hljóta af ostruræktinni hér við land. Finnst mér því eðlilegast, að leyfisbeiðendur ættu að borga þær skaðabætur, sem af friðun þessara vissu svæða kynni að leiða og þá alveg sjálfsagt að taka það fram í frv. Ég get ekki dæmt um málið nema út frá því bréfi, sem kom frá þessu sænska félagi. Og tel ég líka ólíklegt, að þar hefði verið kveðið svo að orði um alla friðun viðkomandi staða, ef það væri ekki alveg nauðsynlegt.