23.11.1939
Efri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hefi ekki haft tækifæri til að vera við 1. og 2. umr. þessa máls. Þykir mér því réttara, áður en það fer út úr þessari hv. d., að segja um það örfá orð, vegna þess að ég mun vera sá úr stj., sem í raun og veru hafði mest um þetta mál að gera, þó að það heyri undir annan ráðherra. Það er af því, að þeir aðilar, sem hafa beinna hagsmuna að gæta í þessu máli, sneru sér til þess ráðherra, sem þeir töldu hafa með sín mál að gera. Ég vil ekki vera hér með óþarfamálalengingar og rekja efni frv., því að það hefir verið rætt hér við fyrri umr., en vil aðeins láta þau ummæli falla, að ástæðan til þess, að stj. beitti sér fyrir, að slík fríðindi yrðu samþ. til handa þessum sjómönnum, er sú, að stj. taldi verðugt, að þessir menn, sem nú taka á sig óvenjulega áhættu, bæru einnig verulega meira úr býtum fyrir sitt starf en þeir hafa undir venjulegum kringumstæðum. Í öndverðu mæltust þessir menn til, að svo yrði ákveðið í 1., að öll sú umframgreiðsla, sem þeir hlytu fyrir störf sín nú, miðað við venjulegan tíma, yrði undanþegin útsvari og skatti, en við umr. kom í ljós, að ekki eingöngu stj., heldur flestum ef ekki öllum umboðsmönnum sjómanna, þótti nokkuð langt gengið í þeirri kröfu, og ég held, að fullyrða megi, að áður en þessum málum lauk milli stj. og sjómanna, þá hafi flestir verið á því máli, að vel væri gengið til móts við þá. Nefni ég þar sérstaklega til háseta á skipum, vegna þess að ég veit, að annar fulltrúi þessarar stéttar, sem á sæti í þessari d., hefir borið fram till. um að ganga lengra. Ég viðurkenni hinsvegar, að fulltrúar skipstjóra og þó kannske einkum vélstjóra sóttu nokkuð fast að ganga lengra um ivilnanir þeim til handa. Ég þykist vita, að þeim finnist, að sérstaklega ég sæki illa þeirra mál með því að láta staðar numið við þau fríðindi, sem þeim eru veitt með þessum l. Ég sagði þeim í öndverðu, að ég lofaði að taka til athugunar þeirra mál og að láta jafnt ganga yfir alla sjómenn, en ég teldi ekki líkur til, að hægt væri að ganga lengra.

Það liggur í hlutarins eðli, að hinar lágt launuðu stéttir á skipunum hafa hlutfallslega meiri stríðsáhættuþóknun heldur en þeir hærra launuðu. Ég nefndi þetta vegna þess, að umboðsmanni þeirra var ljóst, að fríðindin þeim til handa voru svo miklu verulegri hlutfallslega heldur en hjá þeim, sem voru hærra launaðir, að þeir töldu sér fullnægt.

Til orða kom að hafa annað fyrirkomulag á þessu, sem ég að órannsökuðu máli hafði talið að mundi fullnægja sjómönnunum, en við rannsókn á skattgjöldunum, eins og þau eru hér í Reykjavík, kom í ljós, að þegar tekjurnar hækkuðu nokkuð verulega, þá gleypti ríkissjóður og bæjarsjóður allar tekjurnar á fyrsta ári. Skattstjóri reiknaði þetta út fyrir stj., og man ég ekki betur en að hann skilaði áliti frá sér á þá leið, að þegar tekjurnar væru komnar upp í 10 þús., þá væri skatturinn af 11. þúsundinu 96%, og þegar komið væri upp í 20 þús., væri hann 101%, og þegar væri komið í 28 þús., væri hann 110%. En þess er einnig að gæta, sem allir hv. þdm. gera sér grein fyrir, að þetta gildir aðeins um tekjur, sem eru aðeins í eitt ár, því að ef þær gilda lengur, þá kemur skattur og útsvar til frádráttar.

Að fengnum þessum upplýsingum þótti þessi leið með öllu óaðgengileg, og því var horfið að því ráði, sem upp var tekið.

Ég vona, að um þetta mál verði ekki ágreiningur frekar en orðið er, en mér þótti rétt að láta þessi orð falla, þó að málið heyri undir annan ráðh., vegna þess að umboðsmenn sjómanna, sérstaklega háseta, voru sérstaklega ánægðir með það, og ég tel þá líka hafa ástæðu til þess, því að hér er um sérstök fríðindi að ræða, og þau eru eingöngu veitt af því, að allir viðurkenna, að þau eru verðskulduð.