14.03.1939
Neðri deild: 19. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

25. mál, ostrurækt

*Frsm. (Sigurður E. Hlíðar) :

Herra forseti! Síðan þetta frv. á þskj. 28 var til umr. hér í deildinni, hafa komið hér fram brtt. á þskj. 46 frá hv. þm. Borgf. Enda þótt sjútvn. hafi ekki fjallað um þær formlega, hafa einstakir nm. fallizt á þær og styðja að því, að þær nái fram að ganga. Síðari brtt., þess efnis, að við l. málslið fyrri málsgr. 3. gr. bætist orðin „af hálfu leyfishafa“, eru nm. ekki allir samþykkir, heldur líta svo á, þar sem leyfistíminn er stuttur, að álitamál sé, hvort ríkissjóður ætti ekki heldur en leyfishafi að bera uppi þær skaðabætur, sem til greina kunna að koma. En 1. brtt. á þskj. 46 fylgir nefndin eindregið.