14.04.1939
Efri deild: 39. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

29. mál, hegningarlög

*Frsm. (Magnús Gíslason) :

Frv. þetta til almennra hegningarlaga er borið fram af allshn. eftir ósk hæstv. dómsmrh. Frv. er samið að tilhlutum hæstv. stj., og hefir hún fengið til þess Þórð Eyjólfsson hæstaréttardómara, sem síðan hefir lagt frv. undir meðdómendur sína í hæstarétti. Hafa þeir því allir 3 staðið að samningu frv. Í nál. er ekki getið um annað en að Þórður Eyjólfsson hafi samið frv., en ekki tekið fram, að hinir hæstaréttardómararnir hafi einnig unnið að því. Óska ég, að þetta verði leiðrétt.

Allshn. hefir haft þetta frv. til athugunar og lagt talsverða vinnu í að mynda sér skoðanir um það og nýmæli þess. Það er vitanlegt, að á stuttum tíma er ekki hægt fyrir þingnefnd að gera sér grein fyrir svona miklum lagabálki, enda er það svo, að þegar aðrar þjóðir þurfa að breyta hegningarlögum sínum, þá velja þær til þess sína færustu sérfræðinga, og tekur það langan tíma þar til fært þykir að láta slík l. ná fram að ganga. Þannig er þetta einnig hér, og það er vitað, að þm. sem slíkir, með þeim tíma, sem þeir hafa til að athuga mál, geta ekki myndað sér verulega skoðun um slíkt mál, nema um einstök atriði. Allt veltur á því, að málið sé vel undirbúið, þegar það kemur fyrir Alþingi.

Vitanlega er ekki hægt í stuttri framsöguræðu að gera verulega grein fyrir þessu frv. Til þess þyrfti miklu lengri tíma. Mér þykir þó ekki verða hjá því komizt að drepa á helztu nýmæli frv., en verð þó að stikla á því stærsta.

Hegningarlögum okkar og annara þjóða er venjulega skipt í tvennt. Annar kaflinn fjallar um það, sem er kallað almennir glæpir. Hinn er um ýmis önnur afbrot, t. d. brot á ýmissi friðunarlöggjöf, áfengislögunum og ýmiskonar reglugerðum og lögreglusamþykktum, sem sett eru samkv. sérstökum l., en ekki eru talin til refsilaganna. Þó er oft erfitt að greina á milli. hvað heyrir undir hegningarlögin og hvað undir refsilögin, því að eðlismunur á því getur oft verið mjög lítill.

Í þeim l., sem gilda nú, en það eru hegningarlögin frá 1869, voru settar almennar reglur um refsingar yfirleitt, en ekki um brot á ákvæðum sérstakra l. Í frv. er þessu breytt þannig, að refsilagaákvæðin eru yfirleitt látin ná til þess almenna, þó ekki til þeirra brota, sem framin eru af gáleysi eða ef um tilraun eða hlutdeild er að ræða.

Um hin almennu refsiskilyrði get ég verið fáorður, skal aðeins taka það fram, að lögaldur sakamanna er færður upp í 15 ár úr 14 árum; er það gert sakir þess, að lög hafa verið sett um barnaverndarnefndir, og barnavarnarnefnd því í öllum kaupstöðum landsins. Það þykir því rétt að láta afbrot unglinga allt að 15 ára aldri heyra undir þær.

Þá er V. kafli frv. um refsingar. Hér er gerð gagngerð breyting á lögunum frá 1869. Samkv. 10. gr. þeirra l. eru refsingar þær, sem dæma má í líflát, hegningarvinna, fangelsi, sektir, missir embættis, sýslunar eða kosningarréttar. En líflátsrefsingin hefir eins og kunnugt er verið úr lögum numin. Eftir frv. þessu eru refsingarnar aðallega tvær, sektir og fangelsi. Sektirnar mega ekki vera lægri en 4 kr. og ekki hærri en 30 þús. kr., nema þá því aðeins, að sérstök lagaheimild sé fyrir því að ákveða sekt lægri eða hærri. Áður var lágmark sektar 2 kr. og hámark 2 þús. kr.

Í fangelsi má dæma æfilangt, eða frá 30 dögum í 16 ár. Það nýmæli er í frv. þessu, að þegar liðnir eru 2/3 hlutar refsingartímans, en þó minnst 8 mán., getur dómsmrh. ákveðið, að fengnum tillögum fangelsisstjórnar, að fanginn skuli látinn laus til reynslu. Þetta ákvæði um reynslutíma hefir verið sett í lög hjá nágrannaþjóðum okkar og þótt gefast vel, því að menn hafa í fjölda tilfellum ekki gerzt brotlegir aftur. Annars svipar þetta mjög til hinna skilorðsbundnu dóma.

Þá er það og nýmæli í þessu frv., að varðhaldsfangi megi sjálfur útvega sér vinnu, sem samrýmist öryggi og góðri reglu. Er ætlazt til, að fanginn fái sjálfur að njóta arðsins af þeirri vinnu.

Meiningin með því að gera tvískiptingu á varðhaldi og fangelsi er sú, að svo er til ætlazt, að munur verði gerður á þeim, sem fremja minni háttar afbrot, og hinum, sem stærri glæpi hafa drýgt. Það er til þess ætlazt, að sett verði á stofn nýtt fangelsi, svo að þeir, sem gerzt hafa sekir um smávægis brot, verði ekki hafðir með stórafbrotamönnum.

Þá eru ákvæði í þessum kafla um það, hvernig hægt skuli vera að afplána refsidóma. Nú má reynslutíminn ekki vera skemmri en tvö ár, og ekki lengri en 5 ár. Þá er það og nýmæli, að þegar breyta þarf refsingu, jafngildir 2 daga fangelsi 3 daga varðhaldi.

Þá kem ég að 1. kafla frv., sem er um landráð. Í hinum eldri lögum eru þungar refsingar lagðar við landráðum. en þó eru þær nokkuð skerptar frá því, sem þær hafa verið, með frv. Í 86. gr. frv. segir svo: „Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annari nauðung eða svikum að ráða íslenzka ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða æfilangt.“ Hér er sú eina breyting frá því, sem áður var, að bætt er inn í orðunum „eða svikum“. Í frv. er yfirleitt, hvað þetta snertir, frekar aukið það, sem refsivert er talið, heldur en hitt. Í 88. gr. segir t. d. svo: „Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir fram með því eða stuðlar að því, að erlend ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenzka ríkið eða hlutist til um málefni þess, svo og hver sá, sem veldur bersýnilegri hættu á því, skal sæta varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum.“ Hér er því ákvæði aukið frá því, sem áður var, að hver sá, sem hlutast til um málefni Íslands, svo að það geti valdið bersýnilegri hættu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, skuli sæta fangelsi. Þá er það og nýmæli í næstu grein, að hver sá íslenzkur ríkisborgari, sem ber vopn gegn ríkinu eða bandamönnum þess, skuli og sæta allt að 2 ára fangelsi. Þá er það, eins og verið hefir, talið refsivert að ljósta upp leynilegum samningum eða ráðagerðum snertandi málefni ríkisins. En því er bætt við, að slíkt varði allt að 16 ára fangelsi. Þetta ákvæði er sett inn sökum þess, að það er talið hafa svo mikla þýðingu fyrir ríkið, að slíkum samningum sé ekki ljóstað upp.

Þá vil ég minnast lítils háttar á 93. gr. frv. Þar segir svo: „Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenzka ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram, þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að 50 árum“. Hér er sett inn það nýmæli, að hið sama gildir, ef menn reka njósnir fyrir erlenda stjórnmálaflokka sem erlend ríki.

Þá kem ég að XI. kafla frv. Hann fjallar um brot gegn stjórnskipun ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Þar er bætt við nýju ákvæði í 108. gr., að hver sem hefir í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum.

Þá eru enn ný ákvæði í 115. gr., að hver, sem opinberlega skýrir heimildarlaust eða vísvitandi rangt frá því, sem fram hefir farið við kosningar og atkvæðagreiðslur, sbr. 102. gr., eða því, sem gerzt hefir á fundum eða í starfi opinberra samkomna, nefnda, stjórnvalda eða dómstóla, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mán. Hér er því allmjög hert á frá því, sem áður var.

Um XIV. kaflann, sem fjallar um brot þeirra, er gegna opinberum störfum, læt ég vera að ræða að þessu sinni.

Þá hefir verið settur inn nýr kafli, varðandi brot á reglum um framfærslu og atvinnuháttu. Samkv. honum eiga menn að sæta allt að 6 mán. fangelsi, ef þeir verða öðrum til þyngsla, en eru hraustir sjálfir og fullfærir til vinnu, og sinna ekki þeirri vinnu, sem fátækrastjórn eða framfærslunefnd vísar þeim á.

Þá eru og í þessum kafla ákvæði um það, að falli grunur á mann, að hann hafi ekki ofan af fyrir sér á löglegan hátt, þá skuli hann skyldur að skýra lögreglustjóra frá og færa rök að, á hverju hann framfleyti sér og fjölskyldu sinni. Einnig eru og ákvæði um það, að ef menn verða oft sekir um auðgunarbrot, þá sé hægt að skylda þá til þess að gefa sig fram við lögregluna á vissu árabili til þess að gefa skýrslu um, hvað þeir hafist að. Ákvæði er og um það í þessum kafla, að hverjum þeim, sem gerir fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu, eða það, að koma öðrum til þátttöku í þeim, skuli það valda varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári.

Í XXI. kafla frv. eru ýms ákvæði, er snerta sifskaparbrot, og eru þau að mestu hin sömu og nú eru í gildandi lögum, en þó er sú breyting, að nú varðar ekki við lög, þó að maður eigi t. d. barn með stjúpdóttur sinni, en það er aftur ákvæði í lögunum um stofnun og slit hjúskapar, að slíkar persónur megi ekki giftast.

Í kaflanum um skírlífisbrot eru ekki miklar breytingar frá því, sem er í gildandi lögum. Það, sem nýmæli má telja í þessum kafla, er það, að það varðar allt að eins árs fangelsi að komast yfir kvenmann utan hjónabands með því að misnota freklega þá aðstöðu sína, að kvenmaðurinn er háður honum fjárhagslega eða í atvinnu sinni; sé kvenmaðurinn yngri en 21 árs varðar slíkt allt að 3 ára fangelsi. Svo eru og ákvæði um það, að kynferðismök persóna af sama kyni skuli ekki lengur teljast refsiverð. Þó er það refsivert fyrir persónu eldri en 18 ára að hafa kynferðismök við persónu yngri en 18 ára. Einnig varðar það allt að 2 ára fangelsi að hafa kynferðismök við persónu af sama kyni á aldrinum 18–21 árs, ef til þess er beitt yfirburðum aldurs og reynslu að koma hinum til þess að taka þátt í samförunum. .

Um manndráp og líkamlegar meiðingar eru svipuð ákvæði og í gildandi lögum. Þó er sú breyting, að ef móðir deyðir fóstur sitt í fæðingunni eða strax og það er fætt, þá varðar það fangelsi. En ef aðeins er um tilraun að ræða og barnið hefir ekki beðið neitt tjón, má láta refsingu falla niður.

Þá eru og ákvæði í frv. þessu, sem ekki hafa áður verið hér í lögum, að það varðar fangelsi, ef maður stofnar öðrum í háska með gáleysi sinu, og einnig sektum og fangelsi, ef menn af gáleysi fá barni yngra en 15 ára, geðveikum manni, fávita, eða ölvuðum manni hættulega muni eða efni í hendur.

XXV. kaflinn er um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Í 236. gr. frv. er kveðið svo á, að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að tveim árum, og svo kemur til viðbótar, sem ég tel orka tvímælis, að sé aðdróttunin birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varðar það refsingu samkv. 1. málsgr. greinarinnar. Hér má kannske segja, að nokkuð sé nærri gengið prentfrelsinu, og málfrelsinu jafnvel líka. Þetta er það eina ákvæði, sem ég hefi rekizt á, er ég gæti trúað, að myndi valda ágreiningi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um þau nýmæli, sem í frv. eru, enda þótt um þau mætti halda marga fyrirlestra. Það er að sjálfsögðu verkefni þingsins að sjá um, að slík löggjöf sem þessi fái góðan undirbúning. Hvernig gekk með undirbúning hegningarlaganna dönsku, skal ég geta þess, að 1897 var sett á laggirnar nefnd í Danmörku til þess að vinna að þessari löggjöf, og starfaði hún allt fram til ársins 1913, að hún skilaði nál., sem þó aldrei var samþ. Árið 1917 var svo einum af merkustu prófessorum Dana í þessum fræðum falið að semja löggjöf um þessi efni, og sú löggjöf er í gildi enn, að miklu leyti að minnsta kosti.

Hvað snertir Svía og Norðmenn, þá hafa þeir lagt mikla vinnu í þessi mál hjá sér, og hefir hegningarlöggjöfin hvað eftir annað verið endurskoðuð, og hafa ýmsar af breytingum þeim, sem t. d. hefir verið lagt til, að gerðar yrðu á dönsku hegningarlöggjöfinni, ekki náð fram að ganga ennþá þrátt fyrir mikinn undirbúning.

Ég skal fúslega viðurkenna, að það hefir verið lögð mikil og góð vinna í frv. þetta, en þó verð ég að telja mjög vafasamt, hvort rétt sé að afgreiða það nú þegar á þessu þingi; og ég hefi einmitt haft þá sérstöðu í allshn., að réttast myndi að láta afgreiðslu þess bíða fyrst um sinn, og láta fleiri sérfróða menn á þessum sviðum fjalla um málið eins og t. d. prófessora lagadeildar háskólans. Í þessu felst alls ekkert vantraust á þá dómara hæstaréttar, sem málið hafa undirbúið, en það er aðeins öryggið, sem fyrir mér vakir, því að betur sjá augu en auga.