22.04.1939
Neðri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

29. mál, hegningarlög

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég óskaði þess áðan, að máli þessu væri ekki hraðað svo mjög í gegnum þingið, að hæstv. forsrh. gæfist ekki tækifæri til þess að hlýða á síðustu umræðurnar um það. Ég tel það beinlínis ekki samboðið virðingu þingsins eða hæstv. forsrh., að mál þetta sé afgr. frá þinginu með þeim flýti, að ekki geti farið fram um það nauðsynlegar rökræður, því að hér er ekki um neitt smámál að ræða, heldur þvert á móti eitt hið þýðingarmesta mál í íslenzkri löggjöf, mál, sem útheimtir gerhugula og nákvæma athugun.

Hv. frsm. allshn. hefir gert glögga grein fyrir málinu, en hitt skal tekið fram, að n. hafði allt of lítinn tíma til þess að athuga það. Með þessu er alls ekki sagt, að málið hafi verið illa undirbúið, eða að því hafi verið varpað inn í þingið að ófyrirsynju. Hvorugt þetta er fyrir hendi. Málið getur talizt sæmilega undirbúið, og hitt er öllum ljóst, að nýrrar löggjafar um þetta efni er full þörf.

Það er nú ekki svo að skilja, að ég telji, að málið batni mikið með því að vera lengi hjá þinginu, en hitt tel ég nauðsynlegt, að þann veg verði farið með þetta mál hjá okkur, eins og venja er meðal annara þjóða, að það fái sem allra bezta athugun sérfróðra manna á þessum sviðum, svo að sem flest sjónarmið geti komið til greina. Mál þetta er ekki aðeins mál ríkisstjórnarinnar, heldur er það og mál borgaranna, mál, sem getur hitt fjölda þeirra bæði andlega og líkamlega. Það er því nauðsynlegt að fara með allri gát að því að innleiða mikil nýmæli.

Lög þau, sem hér er lagt til, að farið verði að breyta, eru um sjötugt. Það er því í sjálfu sér ekkert undarlegt, þó að það þurfi að fara að endurnýja þau. Að þau skuli í mörgu geta átt við ennþá, sýnir bezt, hve lítið hefir þurft að nota þau, og jafnframt hitt, hversu vel þau hafa verið undirbúin, bæði fræðilega og praktískt.

Í frv. því, sem hér er til umr., eru ýms nýmæli, sumt af þeim hafa dómstólarnir þegar viðurkennt í praksis, og er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, að þau verði lögfest.

Mér finnst það og ekki nema eðlilegt, þó að hæstv. dómsmrh. vilji endurnýja þessi 70 ára gömlu lög. Það er metnaður hans að koma hinum nýja lagabálki fram á þessu þingi, en ég fæ ekki skilið, að það geri nokkuð sérstakt til, þó að mál þetta bíði endanlegs samþykkis þar til í haust, úr því að svo hefir skipazt, að þingi þessu verði frestað fram til síðustu mánaða ársins.

Í allshn. Ed. kom fram rödd um það, að máli þessu yrði frestað til næsta þings, en hún fékk ekki hljómgrunn hjá hæstv. ráðh. Till. kom að vísu engin fram um þetta í d., en síðan hefir þessi skoðun verið uppi. Ég kem ekki heldur fram með neina till. um þetta, — sé ekki ástæðu til að koma fram með till., sem þingheimur er fyrirfram ákveðinn í að fella, en hins vildi ég mælast til við hæstv. ráðh., að hann athugi, hvort breytingunni á þessari sjötugu löggjöf liggi svo mjög á, að ekki sé mögulegt að fá henni frestað til hausts, úr því að þinginu verður frestað á annað borð. Ég tel það nauðsynlegt. svo að málið geti fengið enn á ný nákvæma athugun hjá nýjum aðilum, eins og t. d. prófessorunum í lagadeild háskólans.

Því hefir verið haldið fram, að mál þetta hafi fengið meiri og betri athugun en almennt gerist um lagafrv. Það er alveg rétt, að einn dómaranna í hæstarétti hefir samið frv., og það svo fundið náð fyrir augum samdómara hans. En hvað sem því líður, þá er hitt þó víst, að í frv. eru atriði, sem leikmenn í þessum efnum hnjóta um, hvað þá aðrir, og það er sakir þessa, að ég mælist til þess við hæstv. forsrh., að hann fresti máli þessu til næsta hausts. Sum atriðin eru þess eðlis, að þau gefa jafnvel til kynna, að beita eigi hörku í praksis þeirra, og verði horfið að því í fullri alvöru, þá fer ýmislegt að líta hér öðru vísi út en æskilegt gæti talizt í landi, sem er lýðræðisland og hefir stjórn myndaða á þeim grundvelli.

Eftir þinglegum skilningi mun ekki hætta á því, að þetta svo kallaða lýðræði brotni á bak aftur fyrir þessa refsilöggjöf, en hinu, sem kalla má lýðfrelsi, má traðka, svo fremi, sem hún verður samþ. Sá kafli frv., sem mest grípur á þessum hlutum, er XXV. kaflinn. Þó að flest í þessum kafla sé í löggjöf nágrannaþjóðanna, þá eru samt 2–3 atriði, sem ég tel rétt að minnast á, því að ég tel þau varhugaverð sem fylgismaður lýðfrelsisins.

Þessi atriði, sem ég tel varhugaverð, eru í 236. og 237. gr. frv. Þar er beinlínis farið fram á að skerða þá hluti, sem í l½ öld hafa verið uppistaða alls lýðfrelsis í ræðu og riti. Því hefir verið haldið fram, að búið sé að traðka þessum hlutum hjá mörgum þjóðum heims, en slíkt réttlætir á engan veg, að við förum að gera það líka. En eins og kunnugt er, þá hafa allar þjóðir keppzt um að taka upp í stjórnarskrár sínar ákvæði um ritfrelsi og prentfrelsi, allt frá stjórnarbyltingunni miklu í Frakklandi, og svo gera og öll ríki ennþá, sem lýðfrelsi unna. Að því er snertir ákvæði 236. gr. frv., þá munu ákvæði síðari málsgr. óvíða komin í lög. Í frv., sem dómsmrh. danski bar fram í danska þinginu, fór hann fram á að fá leitt í lög slíkt ákvæði sem þetta í Danmörku, en enn sem komið er hefir það ekki fengizt fram. Það hefir verið deilt mjög um það, og hefir ráðh. haldið því fram, að það væri hinn mesti misskilningur, að slíkt lagaákvæði, sem þetta gæti orðið til þess að traðka lýðfrelsinu; það væri þvert á móti til þess að tryggja .það. En hvað segja nú menn um þetta hér? Ég býst við, að flestir verði á þeirri skoðun, við rólega yfirvegun þessara hluta, að hér sé of langt gengið, höggvið of nærri lýðræðinu með því að fara að lögfesta slík ákvæði sem þessi. Það á að sjálfsögðu að halda uppi allri reglu í landinu með öflugri lögreglu, og ég vona, að lögreglan verði gerð svo sterk, hvort sem það er gert með stofnun svokallaðrar ríkislögreglu eða á annan veg, að hún megni að vernda borgarana og lýðræðið og gera slíkt lagaákvæði, sem hér á að lögfesta, með öllu óþarft. Ég hef skotið þessum aths. fram af því að ég tel, að með síðari málsgr. 236. gr. frv. sé stefnt að því að eyðileggja það lögmál, sem grundvöllur alls lýðfrelsis byggist á, en ég geri þetta sakir þess, að ennþá tel ég lýðræði í landinu, þar sem borgararnir hafi rétt til þess að hugsa og velja og ráða athöfnum sínum, í stað þess að vera beinlínis skipað fyrir um, hvað þeir megi gera, eins og gert er í einræðislöndunum.

237. gr. frv. er nýmæli hér. Þó á hún sér stað í löggjöf annara landa, en það er langt frá því, að ég telji nauðsynlegt að lögleiða hér allt, sem er í erlendum lögum, ekki aðeins að því er snertir þetta atriði, heldur og miklu fleiri. Að ég hefi tekið þessar tvær greinar út úr frv. og rætt þær sérstaklega, stafar af því, að hér er um svo viðkvæman punkt að ræða. Þess vegna tel ég rétt, að hæstv. Alþ. athugi, hvort það mundi koma að sök, að dráttur yrði á afgreiðslu málsins nú, svo að menn og flokkar gætu, ef þeir vilja, leitað eftir upplýsingum um atriði þau, er ég talaði um.