06.03.1939
Neðri deild: 13. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

26. mál, sala Höfðahóla o.fl.

*Flm. (Jón Pálmason) :

Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 30, fjallar um það, að gefa ríkisstj. heimild til að selja Höfðahreppi þjóðjörðina Höfðahóla og Blönduóshreppi litla landspildu, sem kirkjujarðasjóður á í miðju Blönduóskauptúni.

Um fyrra atriðið, sölu Höfðahóla, er það að segja, að það er mjög aðkallandi fyrir Höfðahrepp, vegna ýmsra umbóta og breytinga, sem gera þarf í landareign Skagastrandar, að hreppsfélagið fái þessa jörð í sína eign. Hreppsnefndin og íbúar hreppsins leggja af þessum ástæðum mikla áherzlu á þetta atriði. Auk þess mælir það með að afgreiða þetta nú á þessu þingi, að sá maður, sem haft hefir Höfðahóla á leigu og búið þar, er nú fallinn frá og jörðin því laus. Það virðist þess vegna ástæða til að grípa tækifærið áður en jörðin verður bundin aftur.

Hvað viðvíkur síðara atriðinu, sölu landspildunnar í Blönduóskauptúni, er það að segja, að með því mælir fyrst og fremst sú almenna röksemd, að kaupstaðir og kauptún eigi sem mest af löndum, sem þau standa á, og svo í öðru lagi, að það er í þessu tilfelli mjög óhentugt fyrir Blönduóshrepp að hafa þarna landspildu inni í miðju kauptúninu, sem aðrir eiga en hreppsfélagið sjálft.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en óska, að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og landbn.