11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

151. mál, ábúðarlög

*Eiríkur Einarsson:

Ég tel þetta frv. hv. landbn. ekki nema góðra gjalda vert, því tilgangur þess er auðsjáanlega sá, að vernda ábúð á jörðum. En ég vildi gjarnan, að það gæti komið skýrt fram við þessa umr. atriði, sem kynni að vera álitamál og ég vildi gjarnan spyrjast fyrir um.

Þegar í frv. er talað um jarðir og að landsdrottnar eigi fyrir þennan og þennan tíma að bjóða jarðir sínar til ábúðar, og þeir eigi að sæta viðurlögum, ef þeir vanrækja það, þá vildi ég í því sambandi spyrja, hvort það sé auðveld og sjálfsögð skýring á því, hvað jörð teljist í þessu sambandi. Ég tel fyrst og fremst, að samkv. þessu frv. teljist landsvæði, sem að vísu er nytjað frá jörð, en hefir aldrei verið býli, ekki jörð. Ég álít, að því sé slegið föstu, ef því verður ekki mótmælt. (Stgr.St: Ábúðarlögin kveða sjálf á um það). Já, ábúðarl. skera úr um það. En ég álít samt, að jörð geti verið á takmörkum þess að falla undir hugtakið jörð eða ekki. Það getur verið að ræða um forn býli, sem ekki hafa verið setin, en þó nytjuð. Það getur verið álitamál, hvort slíkt býli eigi að teljast jörð eða ekki.

Ég álít, að þetta þurfi að koma skýrar fram í frv., og ég vildi biðja hv. landbn. að taka þetta til athugunar fyrir 3. umr.