29.11.1939
Neðri deild: 71. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

27. mál, íþróttalög

Frsm. meiri hl. (Pálmi Hannesson):

Hv. þm. A.-Húnv. kom hér fram og vitnaði til þeirra fjárframlaga, sem þetta frv. hefði í för með sér, ef að l. yrði. En ég vil benda honum á það, sem hann einnig hlýtur að vita, jafnmikil afskipti sem hann hefir af fjárl., að það eru fleiri en einn póstur á fjárl., sem fela í sér fjárframlög til íþróttastarfsemi, en þeir eru smáir og dreifðir. Þar eru veittir styrkir til íþróttamannvirkja, íþróttasambanda o. fl. Sé það lagt saman, verður það ekki óverulegur sjóður, sem virðist mega verja til meira gagns heldur en nú, þó að nokkru af því fé sé beint gegnum n., sem hefir það með höndum.

Í öðru lagi talaði þessi hv. þm. um stofnun embættis. Eins og nú er, munu starfa tveir fulltrúar á fræðslumálaskrifstofunni. Og það hefir vakað fyrir þegar frv. var samið, að einmitt annar þeirra fulltrúa hefði með íþróttamálin að gera. Það virðist ekki langt gengið eða fast seilzt eftir fjárframlögum úr ríkissjóði, þó að farið sé fram á slíkt. Ennfremur er gert ráð fyrir, að íþróttafulltrúi hafi þekkingu á íþróttamálum og geti unnið að þeim á fræðslumálaskrifstofunni. Og jafnframt, ef hann gæti ferðazt um landið, hefði hann eftirlit með íþróttunum í skólunum.

Hér virðist því vera um að ræða nýjar vinnuaðferðir í íþróttamálunum, en ekki nýja skrifstofu eða mjög aukinn kostnað.

Annars talaði hv. þm. A.-Húnv. vinsamlega um málið.