21.12.1939
Efri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Magnús Jónsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram litla brtt. við þetta frv. Þegar það fór héðan, var það þannig, að stærri bátum mátti ráðh. heimila að veiða frá 1. sept. til ársloka, og ég færði fyrir því þau rök, að svo framarlega sem síldveiði hefði brugðizt eða að sérstaklega góðir möguleikar séu fyrir sölu og að ekki væru fleiri bátar en svo, sem óskuðu að taka þátt í þessari veiði, að ráðh. teldi skaðlaust, þá væri ekki loku fyrir það skotið með lögum, að bátar gætu hirt þessa veiði. Enda væri það kynlegt fyrirkomulag. Hv. Nd. tók þetta upp, en breytti því nokkuð, þannig að samkv. því eru aðeins 2 mánuðir að haustinu, sem þessa veiði má leyfa, frá 1. október til 30. nóvember. Mér þykir samkv. því, sem ég sagði áður, þetta mark vera sett of þröngt. Ég geri ráð fyrir, að yfirleitt sé séð fyrir, hvernig fara muni um síldveiðina um miðjan septembermánuð, og hefi álitið rétt, að heimildin sé bundin við 1. september, en hefi nú borið fram brtt., þannig að heimildin nái frá 15. september til nóvemberloka, svo að hægt sé að veita bátum, sem koma að norðan úrkula vonar eftir lélega veiði, heimild til þessarar veiði. Annars kom það hér nokkuð til umræðu um danska báta, sem hér hafa stundað veiði, og að það væri mjög leiðinlegt, ef við settum slík ákvæði án tillits til þess, hvort þau hefðu eitthvað það inni að halda, sem gæfi tilefni til þess, að hægt væri að skella því framan í okkur, að við værum að fara í kringum gerðar samþykktir, og vil ég í því sambandi gefa svofellda yfirlýsingu, sem ég óska að sé bókuð orðrétt: „Þannig að ef þessi heimild yrði notuð að því er viðkemur dönskum bátum, þá verði sú heimild einskorðuð við þá báta, sem hafa sannað, að þeir hafi stundað hér veiði, og að þeir séu í eigu sama manns eða sömu manna og gerðir út af sama manni eins og undanfarið“. Því það hefir verið skýrt fram tekið, að ekki er farið fram á annað en þetta, og ef svo væri, er engin hætta á, að illt hlytist af.

Ég ætla svo ekki að tala meira um málið að sinni. Það er orðið svo kunnugt, og vil ég láta menn skera úr um það, hvort þeir vilja rýmka þetta ákvæði.