25.11.1939
Efri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

130. mál, lögreglumenn

*Forsrh. (Hermann Jónsson):

Þetta er nú að verða að mestu leyti málþóf um sömu atriðin, og geri ég ekki ráð fyrir að hafa tíma til að ræða mikið um þau. Hv. þm. byrjaði á því að spyrja, hvort ég gæti staðið við, að fréttin frá Moskva væri orðrétt eins og ég las hana upp. Ég skal ekki fullyrða, að hún hafi verið nákvæmlega þannig orðuð, en að efninu var hún eins og ég las hana. Það voru fleiri en ég, sem hlustuðu á þessa frétt, og það er heldur ekkert launungarmál. Enda var þetta um skeið mjög umtalað hér í bænum. Það má náttúrlega með sanni segja, að fyrir ríki, sem er jafnvel vopnum búið eins og Rússland, sé eðillegt að gera grín að okkur fyrir að geta ekki svo mikið sem kyrrsett eina flugvél. Það má kannske segja það, og það með nokkru háði og ef til vill með nokkrum rétti, að það sé þýðingarlítið fyrir svoleiðis ríki að hugsa sér að geta verið sjálfstætt ríki. En það mætti segja, og það með nokkrum rétti, að það ríki, sem ekki hefir nægilega lögreglu til þess að halda uppi l. og reglu, geti ekki talizt ríki, hvað þá sjálfstætt ríki. Fyrsta hugtakið, um bundið er við orðið ríki, er, að það hafi vald til þess að halda uppi l. og reglum í landinu. Þess vegna er það allundarlegt atriði, sem kemur fram í mótmælum gegn því að endurbæta okkar lögreglu, þannig að hún sé sæmileg.

Þá eru aðeins nokkur atriði, sem hv. þm. spurði um og ég ætla að svara. Hann sagði, að hingað til hefði þurft samþykki meiri hl. bæjarstj. til að auka mætti lögregluna, en nú mætti auka hana án samþykkis bæjarstj. Það er atriði, sem ég hefi áður skýrt; það er aðferð, sem oft tekur svo langan tíma, að það verður óeðlilegt í framkvæmdinni. Annars kom það fram mjög greinilega, hvað það er, sem fyrir honum vakir með því, að lögreglan sé hér nægilega veik. Hann gerir þeim, sem standa að þessu frv., upp tilgang, en hann getur ekki með neinum rökum sýnt annað en það, hvað er hans tilgangur með því að lögreglan sé nægilega veik. Hann getur ekki mótmælt því meginatriði, sem ég sýndi fram á, að það stendur allt öðruvísi á nú en 1925.

Það eru um það skýr ákvæði í frv., að ekki megi beita lögreglunni nema undir sérstökum kringumstæðum. Í annan stað er sérstakur dómstóll, sem dæmir um það, hvað séu löglegar vinnudeilur. Þessu getur hann ekki mótmælt. Svo kemur hann með þetta venjulega slagorð um þvingunarvald ríkisins o. s. frv. Það, sem vakir vitanlega fyrir hv. þm., er að nokkru leyti eðlilegt. Hann veit, að hann og flokkur hans er ekki í meiri hl. nema í fáum verklýðsfélögum. Hann veit, að hann getur ekki á löglegan hátt komið af stað verkföllum í verklýðsfélögunum, a. m. k. ekki nema í sumum. Hann veit, að eftir íslenzkri löggjöf verður meirihlutavilji verkalýðsins að liggja fyrir til þess að hægt sé að gera verkfall. Hann vill fá að gera ólöglega uppreisn gegn ríkisvaldinu.

Það, sem vakir fyrir honum, er því það, að hann óskar eftir, að hér sé velk lögregla, til þess að geta haldið áfram þeirri starfsemi, sem liggur utan við l. og rétt þjóðfélagsins. Það er líka í fullu samræmi við starfsemi hans flokks, ekki sízt eftir þær yfirlýsingar, sem nú liggja fyrir í blöðum flokksins.

Hann benti m. a. á eitt dæmi, sem hann hefir hugsað, að væri talsvert sláandi. Hann sagði, að ef eitthvað kæmi fyrir á Siglufirði, o. s. frv. En ég vil aðeins benda á það, að verði gert þar löglegt verkfall, kemur náttúrlega ekkert fyrir. Hv. þm. veit, að hann talar í samræmi við þá stefnu, sem fram hefir komið í blöðum hans. Þar hefir nú algerlega verið breytt um stefnu, og vinna þeir nú dyggilega að því að koma á fullkominni byltingu; þess vegna þykir þeim sjálfsagt að snúast gegn þessu frv. Hitt er annað mál, hvort ríki, sem halda vill uppi sínum lögum, tekur mikið mark á þessum andmælum. Og það væri full ástæða til þess að taka til athugunar, hvernig eigi að snúast við þeim flokki, sem berst á móti því, að til sé í landinu nægilega sterk lögregla, sem vinnur á móti því, að hægt sé að halda uppi lögleysum í landinu.