23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

149. mál, héraðsskólar

*Árni Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég hefi flutt þessa brtt. sem miðlun í þessu máli, þar sem geti verið um viðunandi úrlausn að ræða til bráðabirgða, svo skólarnir geti haldið áfram eins og verið hefir.

Ég hefi með þessu viljað reyna á, hvað hv. þm., sem mun telja sig einn aðalmanninn í því, að komið hefir verið á samstarfi milli aðalþingflokkanna, vill gera til þess að þetta almenna samkomulag geti haldizt. Ég efast ekki um, að hann geti komið þessu frv. gegnum þingið, en það væri ánægjulegra ef algert samkomulag gæti orðið um það, og sérstaklega ætti það að vera fyrir hv. þm. S.-Þ., sem hefir talið sig framarlega í hópi þeirra manna, sem reynt hafa að auka samvinnuna milli aðalþingflokkanna. Hann er einnig með því að vilja binda ríkissjóði þarna aukna bagga, í ósamræmi við stefnu sína um almennan sparnað.

Ég bauð hv. þm. S.-Þ. framrétta hönd í þessu máli. Hann hefir ekki viljað taka í þessa framréttu hönd. Ég segi því að lokum: Bíddu þangað til ég býð þér hana aftur.