23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

128. mál, heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir

*Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Eins og fyrirsögn þessa frv. ber með sér, er það frv. til l. um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir. Löggjöf um þetta efni er orðin nokkuð gömul, þ. e. a. s. frá 1905, og er því ekki óeðlilegt, þó að á henni þurfi að gera nokkrar breyt.

Það má segja um þetta frv., að það miðar nákvæmlega að því sama og gildandi löggjöf um þessi efni, sem sé að tryggja eftirlit með heilbrigði í landinu. En aðalbreyt. í frv. eru tvær, án þess þó að stefnan sé í nokkru breytt frá núgildandi löggjöf. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að skipaðar verði heilbrigðisnefndir, er svo setji heilbrigðissamþykktir, en í gildandi l. er þetta nokkuð á annan hátt. Í öðru lagi er hér miklu ýtarlegar fram tekið en í gildandi l., hvað skuli og hvað megi taka í slíkar heilbrigðissamþykktir. og er það eðlilega sniðið eftir breyttum staðháttum, því að meira fjölmenni er í kaupstöðum landsins nú heldur en var 1905, þegar núgildandi l. um þetta efni voru samin. Og einnig er þetta sniðið eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefir síðan 1905. Í þriðja lagi er þetta sniðið eftir þeim framförum, sem orðið hafa, bæði í þekkingu læknavísindanna og reynsluþekkingu manna á því, hvernig haga beri ráðstöfunum til þess að gæta sem bezt heilbrigði manna.

Allshn. hefir ekki fundið neitt athugavert við þetta frv. og leggur til, að það verði samþ.