02.03.1939
Efri deild: 9. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

22. mál, tollskrá

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Á það hefir oft verið bent, að tollkerfi okkar væri orðið úrelt. Í sambandi við það og svo hitt, að tollgæzlukerfið er ekki eins og það ætti að vera, ákvað fjármálaráðuneytið 1937 að fá ungan lögfræðing til að fara utan og kynna sér þessi mál með öðrum þjóðum. Varð það úr, að Sigtryggur Klemensson færi utan til þessa. Þá ákvað síðasta þing að skipa milliþm. til að fjalla um þessi mál. Í henni voru bæði stjórnmálamenn og embættismenn, svo sem skattstjórinn og tollstjórinn. Venjulega hafa slíkar n. verið skipaðar stjórnmálamönnum eingöngu, og hafa þeir svo farið í smiðju til sérfræðinga um þau atriði, þar sem þeir voru ekki heima sjálfir. En ég held, að þetta nýja fyrirkomulag hafi reynzt vel í þessu máli, og væri ekki úr vegi að reyna það frekar í öðrum málum.

Verkefni slíkrar n. til að endurskoða skatta- og tollakerfið allt og tollgæzluákvæðin var vandasamt, og sérstaklega hlýtur byrjunin að vera erfið í slíkum málum. En það varð hér ofan á að byrja á því að endurskoða löggjöfina um aðflutningsgjöld. Árangrinum hefir nú verið skilað til þingsins sem frv. um tollskrá, enda þótt ekki hafi enn verið endurskoðuð öll skatta- og tollalöggjöfin. Hefði mátt hugsa sér, að engu frv. væri skilað til þingsins, fyrr en búið væri að endurskoða þetta allt, en hitt ráðið hefir nú terið tekið. En ráð er fyrir því gert, að n. starfi áfram og taki til endurskoðunar fyrir næsta þing aðra löggjöf um skatta.

Eins og hv. frsm. benti á, má telja það undarlega mikinn hraða í störfum, að hægt skyldi vera að skila þessu frv. nú. Danir hafa haft fasta n. til að endurskoða sína skatta- og tollalöggjöf. Hefir hún setið í tvö ár, en hefir ekki skilað áliti enn. Svo flókin eru þessi mál viðureignar.

Ég vil því láta koma fram á Alþingi þakklæti ráðuneytisins til n. fyrir störf hennar.

Ég hefi óskað eftir því, að n. tæki næst til athugunar, hvort ekki væri hægt að breyta lagaákvæðum þannig, að tryggt væri, að beinir skattar kæmu réttlátlega niður, svo að t. d. vaxtafé geti ekki sloppið við skatt, en slíkar till. gætu víst ekki komið á þessu þingi.

Hv. frsm. hefir gert skýra grein fyrir einstökum atriðum þessa máls, svo að ég þarf þar engu við að bæta. En ég tek undir við hann um það, að það myndu verða heppilegustu vinnubrögðin, að fjhn. beggja deilda störfuðu saman að þessu frv.