08.11.1939
Efri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

22. mál, tollskrá

*Brynjólfur Bjarnason:

Frá því þetta frv. var til 2. umr. á þinginu í vor, hafa gerzt stórkostlegir atburðir, sem hafa raskað þeim grundvelli, sem tollskráin var byggð á. Ég lagði fram allmargar brtt. við 2. umr., bæði til lækkunar á almennum lífsnauðsynjum og svo efnivörum til iðnaðarins. Ég tók svo þessar till. aftur til 3. umr., þannig að þær koma til atkv. nú. Allar þessar till., sem ég þá flutti, eru í fullu gildi enn og hníga ennþá sterkari rök að nauðsyn þess að samþ. þær nú en þá. Það er ennþá meiri ástæða til þess nú en þá að forðast að hækka tolla á nauðsynjavörum, til þess að ríkisvaldið stuðli a. m. k. ekki að því að auka dýrtíðina sem við nú þegar eigum við að búa og yfir okkur vofir í ennþá ríkari mæli. Og það er ennþá augljósari nauðsyn þess nú en þá, að reyna að hlúa að íslenzka iðnaðinum með því að lækka tollana á efnivörum til hans. — Ég fylgdi þessum till. úr hlaði í vor og þarf ekki að endurtaka það. Ég læt nægja að vísa til þess, sem ég þá sagði.

Hvað viðvíkur athugasemdum hv. frsm., þá þykir mér það vel, að það skuli hafa verið komið ofurlítið til móts við þessar till. mínar að því er snertir vörur til iðnaðarins.

Hv. frsm. sagði, að það, sem ég bæri fram, væri allt gott og blessað, ef ekki væri þörf fyrir þessar tekjur í ríkissjóð.

Við erum ekki sammála um það, þessi hv. þm. og ég, hvernig skuli afla tekna í ríkissjóð, og hirði ég ekki að fara nánar út í það. En viðvíkjandi því, sem hann var að tala um, að ég vildi auka íhlutun þess opinbera um það, sem einstakir menn hafa nú með höndum, og að þetta myndi hafa falsverðan aukinn kostnað í för með sér, þá held ég nú, að það þyrfti ekki að vera svo mikið. En eitt er víst. Það væri hægt að færa rök að því, að það mætti lækka að verulegu leyti útgjöld ríkissjóðs án þess að það kæmi að sök. Það má hafa miklu ódýrari ríkisstjórn, og það er ýmislegt fleira í sambandi við ríkisreksturinn, sem má spara að skaðlausu. Út í það skal ég ekki fara nú. (BSt: Það er gott að fá till. um það á sínum tíma). Við sósíalistar höfum þegar lagt fram margar till. um þetta, og það getur verið, að við leggjum fleiri fram síðar.

Viðvíkjandi tekjuhlið þessa máls er annars rétt að benda á það, að með þessari tollskrá er heildarupphæð tollteknanna hækkuð verulega, þannig að það getur ekki farið hjá því, að tollur á ýmsum vörum hlýtur að hækka ekki svo lítið. Annars hefir orðið svo mikil röskun á öllum viðskiptum og verðlagi, einkum farmgjöldum og vátryggingum, vegna stríðsins, að ég álít, að það nái ekki nokkurri átt að samþ. tollskrána nú í því formi, sem hún liggur fyrir. Samkv. henni, ef að l. verður, er horfið frá því ráði að miða tollinn við fob-verð og horfið að því að reikna hann út miðað við cif-verð. Eftir að búið er að umreikna tollinn yfir í cif-verð, kemur í ljós, að samkv. tollskránni hækkar tollupphæðin verulega frá núgildandi tolllöggjöf, miðað við verð, sem var áður en það hækkaði vegna stríðsins, og þau farmgjöld, sem þá voru. Nú hafa bæði verð og farmgjöld hækkað svo gífurlega. að tollskráin eins og hún er hlýtur að hafa í för með sér óbærilega hækkun tolla á nauðsynjavörum. Í síðustu styrjöld munu farmgjöldin hafa tífaldast til fimmtánfaldast, og ef styrjöldin stendur lengi, þá er engin ástæða til að efast um, að þau muni hækka á sama hátt, þannig að ef tollskráin yrði samþ. í því formi, sem hún er, gætum við átt von á ófyrirsjáanlegri hækkun á tollum. Og þetta kemur einmitt sérsaklega þungt niður á öllum nauðsynjavörum.

Það er þess vegna till. mín, að umr. um þetta mál verði frestað og frv. aftur vísað til n., en hún sjái svo um, að tollskráin verði aftur umreiknuð í fob-verð, eða a. m. k. verði sett um það bráðabirgðaákvæði, að miða skuli við fobverð á öllum nauðsynjavörum og öðrum vörum, sem líkur eru til, að farmgjöld hækki tilfinnanlega á og hafa mest áhrif á tollinn. Ég held, ef viljinn er með, þá sé það vinnandi vegur að ljúka þessu verki svo snemma, að hægt verði að afgr. frv. á þessu þingi. Náttúrlega getur sú n., sem um málið hefir fjallað, betur sagt um það en ég, hvort þetta myndi verða vinnandi vegur. En ef nú svo færi, að d. vildi ekki fallast á þessa till. mína, þá myndi ég freista að bera fram rökst. dagskrá um að fresta málinu til næsta þings.