09.11.1939
Efri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

22. mál, tollskrá

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Það er nú orðið of seint að ræða þá till., sem ég flutti um að vísa málinu til n., þar sem búið er að fella hana, en gagnrýni hv. 1. þm. Reykv. (MJ) á till. mínum vil ég svara að því er snertir málið sjálft. Hann sagði, að ef þær gengju fram og ýmsir liðir tollskrárinnar væru þannig lækkaðir, mundi það valda ósamræmi í skránni, því að brtt. mínar væru ekki tæmandi. Í sömu ræðu sagði hann, að þótt við sætum allt þingið yfir því að finna lagfæringar, sem gera mætti á tollskránni, yrðu þær aldrei tæmandi. Sannleikurinn er sá, að á einu þingi, er ekki hægt að gera allar þær breytingar, sem gera verður, en fyrir þær sakir látum við ekki niður falla allar endurbætur á tollskránni. Ég hélt, að brtt. mínar væru þar undir sama lögmáli og brtt. hv. fjhn., sem einnig skilja eftir sig nokkurt ósamræmi, — þótt þær verði samþ. af því, að þær eru spor í rétta átt. Og þannig verður að halda áfram með umbæturnar.

Þá kem ég að því atriði, hvort gera eigi þá breyt., að miða tollinn við cif-verð, en ekki fobverð, eins og hingað til hefir verið. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ríkið þyrfti á þeim tekjum að halda, sem af því leiðir, ef innheimtur er tollur af farmgjöldunum auk kaupverðs vörunnar. En hér er ekki aðallega um það að ræða, hvort heildarupphæð tolla er hækkuð með þessu eða ekki, heldur það, að nauðsynjar almennings og önnur þungavara, svo sem sement, timbur og járn o. þ. h., hlýtur að hækka í verði við það, að tollur er tekinn af farmgjöldunum, en léttari og dýrari vörur, sem siður eru í alþýðu þarfir, sleppa með lítið farmgjald og verða því ekki fyrir tollhækkun. Nú eru farmgjöld margfölduð vegna styrjaldarinnar, og þetta er spurning um það, hvort nota eigi það ástand til að hrifsa af almenningi margfaldan toll. Þetta hlýtur að vera öllum ljóst, enda vék hv. þm. Reykv. að hinn breytta ástandi í ræðu sinni, og svo mörg rök hníga að því að taka ekki upp, meðan það ástand helzt, þá nýjung að reikna tollinn með cif-verði, að mig furðar á því, að till. mín skyldi vera felld, um að vísa málinu til nefndar til athugunar á þessu atriði. En úr því að svo er komið, verður að taka næstbezta úrræðið, — að fresta þessu máli öllu til næsta þings, síðar í vetur. Því ber ég fram rökst. dagskrá um þetta efni og afhendi forseta.