16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

22. mál, tollskrá

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í frv. er, eins og bent hefir verið á, ekki gengið út frá því sem ófrávíkjanlegri reglu, að tollur sé greiddur af því flutningsgjaldi, sem út hefir verið lagt. Hafa tveir þm. bent á tvö atriði, sem að þeirra dómi mæla gegn þessu. Er þá fyrst og fremst það, að komið geti fyrir, að menn fái hagkvæmari flutningsgjöld en venja er til að greiða, og sé því ekki nema sanngjarnt, að menn fái að njóta þess, og svo hitt, að ef ætti að miða t. d. við farmgjöld Eimskipafélags Íslands, þá gæti það orðið ósanngjarnt. Nú kemur það sjálfsagt ekki til greina að miða einungis við farmgjöld Eimskipafélagsins, nema þá við tollun þeirra vara, sem að öllum jafnaði koma með skipum þess félags. En þar fyrir utan eru margar aðrar vörur, eins og kol, olía, salt og byggingarefni, sem oftast kemur með skipum, sem sérstaklega eru leigð í því augnamiði, og myndi í framkvæmdinni verða gerður greinarmunur á þessu. En það, sem ég vildi taka fram, er það, að þótt eitthvað kunni að mæla á móti því að hafa þessa reglu í frv., þá vil ég biðja n. að athuga það til 3. umr., að eitt atriði a. m. k. mælir með því, að þessari reglu sé fylgt. Eins og við vitum eru flutningsgjöld nokkuð misjöfn til ýmissa staða á landinu. Sumar hafnir eru álitnar svo hættulegar, að skipaeigendur vilja fá hærri gjöld fyrir vörur þangað en til annara staða, og þannig mun það vera um allmargar smáhafnir. Þess vegna verður það svo, að í mörgum tilfellum verða menn að leigja skip til þessara hafna og fá fluttar þangað vörur með lakari kjörum en t. d. til Reykjavíkur. Í þessum tilfellum finnst mér sanngjarnt að reikna ekki með raunverulega flutningsgjaldinu til þessara hafna, heldur almenna gjaldinu. Það er ósanngjarnt, að ofan á hærra flutningsgjald bætist einnig það, að þurfa að greiða hærri verðtoll. (FJ: Það er einmitt þetta, sem við óttumst.)