19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Manni virðist svo, að hér í þinginu sé mikið talað um sparnað og það, hve óhjákvæmilegt sé að skera niður útgjöld, sem virðast bráðnauðsynleg. Þess vegna væri ekki nema eðlilegt, að einhverjar útskýringar kæmu frá hálfu þeirra manna, sem flytja frv. um að stofna í landinu ný embætti. Það væri einnig sjálfsagt, að almenningur og þingheimur fengi að vita, að hvaða leyti þetta er nauðsynlegt. Þessi embættaskipun í landinu hefir stórkostlegan kostnað í för með sér, og þar að auki, frá margra manna sjónarmiði, ekki heppileg. Ef ég á að lýsa afstöðu minni til þessara mála álít ég ekki rétt að fjölga embættum og auka þannig útgjöld ríkisbúsins; finnst mér frekar liggja fyrir að draga úr þeim. Við heyrðum það ekki alls fyrir löngu, þegar rætt var um, að sjómenn fengju uppbót á laun sín, að slíkt þótti hin mesta fjarstæða, en nú koma valdhafarnir með mál sitt um aukin útgjöld ríkissjóðs, án þess að hafa náð um það samkomulagi við fjárveitinganefnd. Með frv. er stofnað til útgjalda í stórum stíl, og það er ekki einu sinni haft svo mikið við að koma með rök fyrir því, að þetta sé nauðsynlegt. Ég er ekki aðeins á móti frv. frá sjónarmiði sparnaðarins, heldur álít ég líka, að með því sé verið að skapa sterkari ofbeldistæki en áður hafa verið notuð af íslenzku ríkisvaldi. Í frv. er ekki gert að skyldu, að sá maður, sem fer með lögreglustjórn í Reykjavík, sé lögfræðingur, heldur gengið út frá. að það sé maður, sem reynist hæfur til þess að stjórna her. Þetta vildi ég láta koma fram um leið og frv. fer til 2. umr. og til n.

Ég hefi nú lýst afstöðu minni gagnvart ríkislögreglufrv. og skal ekki fjölyrða frekar um það, en mun greiða atkv. móti því við þessa umr.