29.12.1939
Efri deild: 98. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil geta þess, að mál þetta hefir skemmzt nokkuð við að fara til Nd. Úr 10. gr. þess hefir verið sleppt töluvert mikilvægum ákvæðum að mínu áliti, þar sem gert var ráð fyrir, að dómsmrn. gæti haft miklu betri aðstöðu til að reka mál á kostnaðarminni hátt fyrir ríkissjóð en verið hefir, og þyrfti eigi að sæta afarkostum frá þeim mönnum, er slík störf tækju að sér. En vera má, að ráðun. hafi nú á að skipa svo ágætum setudómara, að það sé ánægt með frv. eins og það er nú, og fyrst ráðun., sem ég hélt að myndi taka þessu atriði feginsamlega, hefir ekki lagt neitt orð í belg um þetta efni, þá vil ég ekki vera að berjast fyrir brtt., e. t. v. í óþökk ráðun. En ég get hinsvegar ekki látið frv. fara svo framhjá mér, að ég lýsi ekki óánægju minni yfir þessu atriði, og mun með þessu óbeinlínis stofnað til töluverðrar eyðslu fyrir ríkissjóð.