15.12.1939
Neðri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

150. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Allshn. hefir athugað allar umsóknir, sem borizt hafa og getið er um á þskj. 388, og hafa þeir menn, sem þar eru greindir, fullnægt öllum settum skilyrðum í l. nr. 64/1935, um ríkisborgararétt, hversu menn fá hann og missa. — Sömuleiðis hefir n. athugað umsókn, sem borizt hefir frá Oskar Sövík og hv. þm. A.-Húnv. flytur nú brtt. um á þskj. 422. — Eins og flm. brtt. tók réttilega fram, þá vantar þennan mann hálft ár til þess að hafa dvalið hér 10 ár, en hefir hinsvegar ekki starfað í þjónustu ríkisins eða ríkisstofnana, og telur allshn. því ókleift, með tilliti til þeirra reglna, sem fylgt hefir verið um hvern einasta umsækjanda síðan l. frá 1935 voru sett, að mæla með því við þingið, að þessum manni verði veittur ríkisborgararéttur. N. hefir fylgt um þessi efni ströngum reglum og oft neitað mönnum af smávægilegum ástæðum um að taka umsóknir þeirra til greina. N. getur ekki séð annað en að ef gengið er einu sinni inn á þá braut, að krefjast ekki stranglega, að öllum settum skilyrðum sé fullnægt, þá verði gersamlega óstætt við afgreiðslu þessara mála. Enda myndu ýmsir, sem áður hafa fengið neitandi svör hjá n., telja hér um mikið ranglæti að ræða gagnvart sér. En auk þess sem maður þessi hefir ekki enn fullnægt skilyrðinu um lengd dvalartíma, þá fullnægir hann ekki heldur því atriði, að sýna vottorð um þann tíma, sem hann hefir dvalið í landinu. Hann kveðst hafa verið hér síðan 1930, en 1933 gekk hann í þjónustu rafveitunnar á Blönduósi. Það er þó a. m. k. óhjákvæmilegt að krefjast þess, að fyrir liggi hegningarvottorð fyrir árin 1930–1933, og vottorð um, hvort maðurinn hefir þegið sveitarstyrk á þessum árum, ef taka ætti tillit til umsóknarinnar. Samkv. símskeyti frá sýslumanni Húnavatnssýslu hefir maður þessi unnið hjá Stefáni Runólfssyni áður en hann réðst til rafveitunnar á Blönduósi, en vottorð er ekki fyrir hendi. Annars vil ég segja það almennt um þetta mál, að gildandi l., frá 1935, voru á sínum tíma borin fram af allshn. Ed. eftir tilmælum hæstv. þáv. og núv. dómsmrh., og það var samþ. af öllum hv. þm. mótatkvæðalaust, að þeim skilyrðum, sem sett eru, yrði framfylgt í öllum tilfellum, og er sérstaklega sterkt kveðið að orði í grg. um þann glundroða, sem fram að þeim tíma ríkti um þessi mál, og að nauðsynlegt sé að hindra, að menn, sem aðeins hafi haft hér stutta viðdvöl, geti öðlazt ríkisborgararétt. Frv. fór upphaflega fram á 15 ára dvalartíma sem skilyrði fyrir ríkisborgararétti. Ég vil taka það skýrt fram fyrir hönd allshn., að okkur er alls ekki stætt á nokkrum reglum um þessi mál, ef byrjað er á að veita undanþágur og ekki lengur haldið sér við lagabókstafinn. Hitt er annað mál, ef þingið vill nú taka upp þá stefnu að gera ekki eins harðar kröfur og gert hefir verið síðan 1935, en láta t. d. 5 ára búsetu nægja fyrir þá, sem ekki hafa verið starfsmenn hins opinbera, ekki einungis ríkisins, heldur og allra sýslu-, bæjar- og sveitarfélaga á landinu. Ef þessi stefna yrði upp tekin, þá yrði að breyta gildandi l.