23.11.1939
Neðri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Finnur Jónsson:

Ég hefi ekki getað orðið hv. meðnm. mínum sammála, af ýmsum ástæðum, m. a. af því, að eins og frv. kemur fram fyrir deildina, tel ég útilokað, að það kæmi að því gagni, þótt að lögum yrði, sem til er ætlazt.

Hv. þm. V.-Húnv. taldi nauðsynlegt, að sett yrði ný umgerð fyrir slíkan félagsskap. En mig vantar skýringar á því, hvers vegna slíkur félagsskapur sjómanna getur ekki eins starfað á öðrum hvorum þeim grundvelli, sem fyrir er, annaðhvort sem hlutafélag eða samvinnufélag, eða hvers vegna hann þarf að lúta öðrum lögum en önnur sambærileg fyrirtæki til atvinnurekstrar. Hv. frsm. virtist gefa þær skýringar á því, að oft kæmi ágreiningur milli atvinnurekenda og sjómanna um kaup og kjör, og af þeim ástæðum væri nauðsynlegt að setja upp einhverskonar félagsskap, þar sem slíkt væri útilokað, svo að ágreining og vinnustöðvanir þyrfti ekki að óttast framar. Ég er hræddur um, að vinnudeilur séu hreint ekki afnumdar með þessu frv. Að vísu má sjá einhverja viðleitni í 5. gr., þar sem segir, að um hlutaskiptin skuli ákveðið í samþykktum félagsins. Það verður að skilja svo, að ákvæði um hlutaskipti í þessum félagsskap eigi að draga undan áhrifum verklýðsfélaganna og ganga þar með freklega á þann rétt, sem félögunum var veittur með vinnulöggjöfinni. Nú er það svo, að ég held alstaðar þar, sem hlutaskipti hafa tíðkazt, að um þau gildir hefð, sem yfirleitt er ákveðin af langvarandi samkomulagi og staðfest í samningum útgerðarmanna og sjómanna. Samkv. 5. gr. á ekki að fara eftir þeirri hefð, og til þess að undirstrika þetta ákvæði enn betur, segir í 2. gr., að félagssamþykktirnar þurfi að öðlast staðfestingu bæjareða sveitarstjórnar og síðan ríkisstjórnarinnar, áður en þær fá gildi. Í skjóli þessa lagafrumvarps geta fáeinir einstakir menn, sem vilja taka sig út úr af einhverjum ástæðum og ekki vilja hlíta samþykktum stéttar sinnar á staðnum, brotið þær og hinn umsamda taxta þar. Með því er gengið svo freklega á þann rétt, sem veittur var með vinnulöggjöfinni, að ég tel af þeirri ástæðu einni óverjandi að samþ. frv. eins og það er. Eðlilegast hefði verið að ætlast til þess, að á hverjum stað gilti sú regla áfram um hlutaskiptin, sem gilt hefir þar, milli útgerðarmanna og sjómanna oft árum saman. Þó frv. eins og það er fram borið geti verið til skaða fyrir sjómannafélögin, má teljast kostur, að litlar líkur eru til, að stofnað verði til slíks félagsskapur, með því að sjómönnum hlýtur að vera ljóst, hver hætta samtökum þeirra getur stafað af slíkri félagsstofnun.

Eins og hv. frsm. tók fram, er frv. gamall kunningi. Þó hefir það að ýmsu leyti tekið breytingum til hins verra. Það var t. d. gert ráð fyrir áður, að félög, sem stofnuð yrðu á þessum grundvelli, nytu forgangsréttar til lána úr fiskveiðasjóði. Þetta er numið burt úr frv. Með því að ég tel þetta frv. svo stórgallað og að sumu leyti beint skaðlegt, að það eigi ekki að ganga fram, situr ekki á mér að sakast um, þótt úr því hafi verið fellt það, sem frekar horfði til bóta. Ég er sízt á móti hlutaskiptum í sjálfu sér. En ég held því fram, að verkalýðsfélögin og atvinnurekendur eigi að vera frjáls að semja um þetta sín á milli, þar eigi ekki að vera neinar undantekningar. Undantekning sú, sem gerð hefir verið með löggjöfinni um gengisbreytinguna síðastl. vor er aðeins tímabundið ákvæði, sem gert er ráð fyrir, að falli til fulls úr gildi 1. apríl næstk., og gefur enga átyllu til að halda frekar inn á þá braut.

Hlunnindin, sem félögunum eru ætluð, geta reynzt harla lítilsverð, að ég ekki segi einskis virði. Það er gert ráð fyrir framlagi sem svarar 1% af ársafla úr sveitar- eða bæjarsjóði í tryggingarsjóð félagsins. Nú er það vitað, að fjárhagur bæjar- og sveitarfélaga er yfirleitt svo bágur, að leitun er á þeim stað, þar sem fúslega yrði gengið undir slíkan árlegan bagga eða öruggt, að undir honum yrði stöðugt staðið í bæjarfélögum, sem eru að berjast við að fara ekki á landið. Það er rétt, að ýms bæjar- og sveitarfélög hafa veitt slíkum félagsskap fjárhagsstuðning og lagt að sér til þess, en það hefir þá verið leyst af hendi í eitt skipti fyrir öll og ekki sem skyldubundin byrði af óákveðinni stærð um óákveðinn tíma.

Af þeim ástæðum, sem ég hefi greint, að samningaréttur er tekinn af sjómönnum með frv. og að hlunnindi af hálfu þess opinbera eru sama og engin, þá eru ekki líkur til, þótt frv. yrði að lögum, að þau freistuðu manna til félagsstofnana. Lögin um hlutafélög og um samvinnufélög eru hvor um sig heppilegri grundvöllur til atvinnurekstrar en þetta frv., og ég mun greiða atkv. á móti því, í því formi, sem það liggur hér fyrir.