02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Magnús Jónsson:

Ég var einn af þeim, sem greiddu atkv. með rökst. dagskrá 2. landsk. við 2. umr., og ég verð að segja, að ég á enn, eins og þá, allerfitt með að taka afstöðu til málsins með eða móti og vildi því heldur fá málið afgr. með rökst. dagskrá og óska eftir frekari athugun á málinu, og ég er enn sömu skoðunar. Ég er í sjálfu sér alveg samþ. tilganginum, sem reynt er að ná með frv., sem er sá, að byggja hér upp sérstaklega smærri útgerð á þann hátt, sem reynt hefir verið hér á landi og reynzt farsælt, ég vil segja öldum saman. En þetta fyrirkomulag byggist á gagnkvæmri ábyrgðartilfinningu allra þeirra, sem vinna við þennan atvinnuveg, en ég er ekki viss um, að þetta náist með því frv., sem hér liggur fyrir. Að sumu leyti er ég líka hræddur um, að of langt sé gengið aftur á bak í frv. Mér finnst jafnvel vera of nærri þeim gengið, sem eiga að vinna að þessu, t. d. með ákvæðinu um það, að þeir skuli ráðast upp á hlut án nokkurrar frekari kauptryggingar, fyrr en þá ef safnast í þessa kauptryggingarsjóði, en það fer þá eftir því, hvernig gengur.

Ég skal ekki fara út í einstök atriði frv., enda á það ekki við við þessa umr. En mér finnst samt sem áður, að í þessu frv. séu einstök atriði, sem mér finnst — það er ef til vill af ókunnugleika — að gætu sett allt málið í baklás. Ég vil í þessu sambandi benda á ákvæðið um það, að ekki megi ráða fasta starfsmenn, nema þeir um leið gerist félagsmenn. Mér finnst, að ákvæði eins og þetta geti sett allt málið í baklás, a. m. k. ef l. eru sett í fullkominni óvild verkalýðsfélaganna og sjómannafélaganna, því að þetta getur þá bókstaflega strandað allt á því, að menn vilji ekki ganga í svona félag. (Rödd af þingbekkjum: Þá verða þau ekki stofnuð). Vissulega er það satt, sem einhver greip fram í, að þá verða þau ekki stofnuð, en þá ná l. ekki heldur tilgangi sínum, því að hann er vitanlega sá, að félögin verði stofnuð. Ég get því beinlínis ekki tekið undir orð hv. þm. Hafnf. um það, að hann væri hræddur um, ef frv. yrði að l., að menn færu að rjúka saman í hópa og vilja stofna svona félög. Ef félögin eru byggð upp á heilbrigðum grundvelli, þá er áreiðanlega tilgangurinn sá, að útgerðin verði einmitt framvegis rekin með þessum hætti. Ég get þess vegna ekki séð, að það væri neinn ókostur ef menn rykju til og stofnuðu svona félög. Ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki að gera brtt. við þessa gr. þannig, að tilgangurinn náist áfram, en á hinn bóginn sé siglt framhjá þessu skeri, sem ég nefndi.

Augljós örðugleiki á frv. eru ákvæðin um þau gjöld, sem lögð eru á hlutaðeigandi bæjarfélög og hreppsfélög, þar sem þau eru skylduð til að leggja í varasjóði jafnt á móti hverju félagi. Að vísu má segja, að 2. gr. tryggi bæjar- og sveitarfélögin fyrir óhæfilegum útgjöldum í þessu skyni, þar sem þarf samþykki hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar til að stofna svona félag, en ég vil benda á það, að aðstaða viðkomandi bæjarstjórnar verður þarna erfið. Við skulum segja, að það sé búið að stofna félög, sem bæjarstjórnin hefir samþ. Svo koma fleiri félög, og þá vex bæjarstj. fjölgunin í augum. Einhverstaðar verða auðvitað takmörkin að vera fyrir því, hvað mörg félög geta orðið stofnuð á þennan hátt. En verður ekki erfitt að skera sundur á réttum stað? Ég bendi aðeins á þetta. Ég treysti mér ekki að gera um þetta brtt., því að þetta verður að athugast miklu nánar áður en till. væru gerðar.

Af þessum ástæðum, að ég viðurkenni fyllilega nauðsynina fyrir þessu máli og þá grundvallarhugsun, sem hefir komið því af stað, þá verð ég að harma það, að mér finnst, að ekki hafi verið leyst þau vandamál, sem leysa þarf í sambandi við það. Og mér fyndist eðlilegt, að svona mál, sem markar að nokkru leyti nýja stefnu, komi frá ríkisstjórninni. Ég vil þess vegna gera það að till. minni, að málinu verði vísað til ríkisstj., ekki af neinum fjandskap við málið, heldur aðeins til frekari athugunar.

Hv. 2. landsk. hefir borið hér fram nokkrar brtt. Það getur vel verið, að þær brtt. séu ýmsar til bóta, en samt verð ég að taka undir það með 2. þm. S.-M., að þær muni vera frekar stílaðar til að verða málinu að fótakefli. Ég get sem sagt ekki fallizt á þær. 4. brtt. virðist mér eyðileggja alveg tilgang frv. Tilgangur frv. er augsýnilega sá, að allir, sem við fyrirtækið vinna, beri sameiginlega ábyrgð á rekstrinum og beri úr býtum það, sem hann gefur af sér, því annað er ekki hægt, þegar til lengdar lætur. Það er náttúrlega um stundarsakir hægt að safna skuldum með því að hafa hærra kaupgjald, en til lengdar getur það ekki gengið. 7. brtt. er líka fjarstæða. Ég veit satt að segja ekki, hvernig færi fyrir fjölda mörgum sveitarfélögum, þar sem aðalgjaldendurnir eru einmitt útgerðarfyrirtækin, ef ætti að fara að undanþiggja þá opinberum gjöldum. Ég held, að hv. 2. landsk. hljóti að sjá það sjálfur, að þessi till. getur ekki staðizt. Alveg sama verð ég að segja um aðrar till. hans. Ég kann ekki við þær. Þær breyta frv: ekki til hins betra, nema síður sé.

Ég vil af ástæðum, sem ég hefi nú fram tekið, leyfa mér að bera fram þessa till., um að málinu verði nú vísað til ríkisstj. til frekari athugunar og aðgerða.