08.12.1939
Efri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

118. mál, framfærslulög

Ég kem þá að 1. brtt., við 9. gr. frv. Þessi brtt. er frá einstökum nm., og er mér óhætt að segja, að hann hefir ákveðið að taka hana aftur til 3. umr. — Þá er 2. brtt., við 16. gr., um að b-liður þeirrar gr. falli niður. Í b-lið er gerð sú breyt. á núgildandi l., að gert er ráð fyrir, að kjörtímabil framfærslunefnda verði hið sama og annara fastanefnda bæjarfélags, en í núgildandi l. er kjörtímabil þessara n. sama og bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmanna, 4 ár. Ég legg til, að ekki verði breytt frá gildandi l. í þessu efni. Auðvitað má segja að þetta skipti ekki miklu máli, og n. hefir um þetta óbundnar hendur. — 3. brtt. er við 18. gr., og er öll n. sammála um hana. Aftan við 18. gr. er lagt til, að bætist ákvæði um það, að um ágreining út af ákvörðun sveitarstjórnar skuli fara samkv. 21. gr., þar sem heimilað er að áfrýja gerðum fátækranefnda eftir reglum, sem þar eru nánar greindar. Hljóðar gr. um, að sveitarstjórn megi ekki skilja hjón samvistum nema um stundarsakir. Álitamál getur orðið um það, hvaða merkingu beri að leggja í orðin „um stundarsakir“. Auðvitað væri æskilegt að hafa ákvæði í l. gleggra, en n. sér sér ekki fært að gera till. um það efni. Hinsvegar finnst n. sjálfsagt, að þegar í l. er ákvæði, sem ágreiningur getur orðið útaf, þá sé þar einnig ákvæði um, hversu með þann ágreining skuli fara. Geri ég ráð fyrir, að þessi brtt. verði að teljast til bóta. — 4. brtt. er við 19. gr., að í stað orðsins „yfirvald“ komi:

lögreglustjóri. Þetta er aðeins orðabreyting og leiðrétting til samræmis við það, sem kemur fram annarstaðar í frv. — Þá er 5. brtt., við 21. mgr. Ég hefi lítið um hana að segja annað en það, að hún er frá einstökum n. manni, og mun hann sjálfsagt gera grein fyrir henni. Ég er henni andvígur bæði að efni og frágangi, en vil ekki ræða það nánar fyrr en talað hefir verið fyrir henni.

Kem ég þá að 6. brtt., og get í raun og veru tekið sameiginlega 6. og 7. brtt. og b-lið 9. brtt. Þær fjalla allar um það sama. Er lagt til, að síðasta málsgr. 22. gr. frv. falli niður, en hún hljóðar um það, að ríkissjóður ábyrgist þær endurgreiðslur, sem frvgr. fjallar um. Ég lít svo á, að það sé mjög varhugavert að leggja ríkissjóði þessa byrði á herðar, mest vegna þess, að það hlýtur að hafa verulegan kostnað í för með sér, og svo hitt, að þegar slíkt ákvæði er lögtekið, fellur burt hvötin hjá dvalarsveitinni til þess að hafast nokkuð að í þessu efni. Einnig fellur burtu hvöt framfærslusveitarinnar, sem veit, að ríkissjóður greiðir. Ég tel, að það, að landið verði gert að einu framfærsluhéraði, eigi ekki að koma nema smátt og smátt, til þess að þeir gallar, sem því fylgja, verði fyrirbyggðir smám saman, eftir því sem reynslan sýnir, og þarna kemur sá stóri agnúi, sem ég tel, að sé mjög varhugaverður, að láta þetta ekki koma fyrir, áður en breytingin er gerð að fullu, því mér er alveg ljóst, að af þessu hljóta að leiða töluvert mikil útgjöld fyrir ríkissjóðinn, og um þau útgjöld er ómögulegt að gera neina áætlun, vegna þess að ýms ákvæði geta gert það að verkum, að það verði nokkru meira um þetta en hefir verið, svo að þó maður vildi byggja á því, sem hefir verið síðustu árin, er það ekki nógu tryggt, því að ég get búizt við, að það yrði nokkru meira fyrst eftir breytinguna. Ég vil taka það fram, að ef það er svo, að þing og stjórn vilji hafa þessa skipun á málunum, þá er ekkert við því að segja, en það haggar ekki minni skoðun á málinu, og mun ég þó ekki á neinn hátt láta það verða að fótakefli fyrir frv., þótt mín skoðun ekki fái fylgi, en ég hefi talið mér það skylt, til samræmis við mitt álit, að gera þessa brtt. Mér er kunnugt um það, að einn samnefndarmanna minna er á móti þessu og einn hefir ekki greitt atkv. um það.

Ég skal taka það fram, að ef aðeins væri um að ræða ákvæði 5. gr., þá hefði ég ekki talið ástæðu til þess að fella það niður sérstaklega, en til samræmis hefi ég talið rétt að flytja brtt. um að fella það niður. Ég get svo látið þetta vera nóg fyrir mína hönd viðvíkjandi þessum þrem brtt. Þó vil ég taka það fram, að ég legg mesta áherzlu á síðustu brtt. Náttúrlega hafa þær allar sín áhrif, en ekki hún sízt. Ég held, að ég hafi getað gert hv. deild það nógu ljóst hvað fyrir mér vakir með þessum brtt. Ég á þá ekki eftir nema 8. brtt., og ég get verið stuttorður um hana. Hún er við 29. gr., fyrri málsgrein. Ég á ekki neinn hlut að henni og get lýst því yfir, að ég er henni andvígur, mest vegna þess, að ég tel ekki, að hún bæti úr þeim ágöllum, sem ég sé á 29. gr. — 29. gr. var allmikið rædd í n., og skal ég játa, að ég hefði gjarnan viljað, að ákvæði hennar hefðu verið meira afgerandi, þannig að þau yrðu ekki hártoguð, en það varð niðurstaðan hjá meiri hl. n., að hann sá sér ekki fært að gera brtt., sem bættu nokkuð úr. Það er sjálfsagt erfitt að koma fram með tæmandi ákvæði um þetta efni. Eins og hv. dm. sjá af gr., er ákvæði hennar um það, að barnsmóðir, sem hefir tekið meðlag samkvæmt meðlagsúrskurði, skuli, ef hún giftist eða býr með karlmanni, sem sér fyrir henni, missa réttinn til meðlagsins. Breytingin, sem gerð er frá gildandi lögum, er ekki önnur en þessi: „eða býr ógift með karlmanni, sem er fyrirvinna heimilisins“. Ég held, að allir séu sammála um þetta, því að ef kona, sem býr ógift með karlmanni, er rétthærri en sú, sem er gift, þá eru missmíði á löggjöfinni, en því verður þó ekki neitað, að hér kemur ýmislegt til greina, því karlmaður og kona geta búið saman á þann hátt, að ágreiningur geti orðið um, hvað rétt sé, og játaði meiri hl. þetta, en sá sér ekki fært að gera brtt., sem til bóta gæti orðið. Aftur hefir einn meðnefndarmanna minna gert brtt. á þskj. 75, en ég verð að segja, að ég tel hana ekki bæta úr, og kannske gera erfiðleika.

Þá er eftir A-liður 9. gr., og þarf ég ekki mikla grein að gera fyrir þeirri brtt., því hún er ekkert annað en lagfæring á orðum gr.

Ég held að ég geti látið þetta nægja fyrir mína hönd, og held, að ég geti einnig látið það nægja fyrir hönd meir hl. n. Ég er þar með ekki að leggja neinar hömlur á, að samnefndarmenn mínir geri aths. eða skýri frekar en ég hefi gert brtt. eða frv. í heild. Ef til vill tek ég aftur til máls, þegar minni hl. hefir gert grein fyrir sínum brtt., þó ég búist ekki við, að þær gefi mér neitt sérstakt tilefni.