16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

118. mál, framfærslulög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég á hér 2 brtt. á þskj. 475, sem ég tók aftur við 2. umr. málsins af ástæðum, sem ég þá greindi.

Fyrri brtt. er við 9. gr. og fer fram á, að gr. falli niður, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„a) Aftan við fyrri málsgr. 15. gr. laganna bætist: og lögskyldur framfærslumaður sé ekki fær um að ala önn fyrir barninu meðgjafarlaust.

b) Á eftir orðunum „meiri meðgjafar en meðalmeðlags“ í síðari málsgr. sömu lagagreinar kemur: og foreldri er ekki fært um að ala önn fyrir barni án meðgjafar“.

Um þessa gr. var mjög mikið rætt innan n., og lengi vel virtist mér, að meðnm. mínir væru á þeirra skoðun, að gr. ætti að falla niður, og þeir voru þeirrar skoðunar, að í gr. fælist ákvæði um að svipta barnaverndarnefndir þeim íhlutunarrétti, sem þær hafa um það, hvort barn skuli taka frá fósturforeldrum til foreldra, ef þær álíta, að þau séu þess megnug að ala önn fyrir barninu. Ég held, að það sé ekki hægt að leggja annan skilning í þessi orð, sem á að hnýta aftan við gr. Á síðustu stundu vildu nm. svo ekki fella gr. niður af ástæðum, sem þeir vildu ekki skýra frá. Ég held fast við þá skoðun, að það megi ekki svipta barn rétti til að dvelja hjá fósturforeldrum, jafnvel þó foreldrarnir séu þess fjárhagslega megnugir að sjá fyrir barninu. nema að það komi fram í dómi óhlutdrægrar nefndar, barnaverndarnefndar, að barninu geti liðið jafnvel á hvorum staðnum sem er eða betur á öðrum. Í þessu sambandi er alls ekki alltaf nægilegt að líta á fjárhagsástæðurnar. Ég skal ekki rekja mörg dæmi þess hér, en ég veit, að það eru til mörg dæmi þess, að barn hefir liðið fyrir það alla æfi að vera tekið frá fósturforeldrunum. Barnið getur verið búið að fá ást á fósturforeldrunum og þótt alveg eins mikið fyrir því að fara frá þeim eins og foreldrar þess væru. Ég hefi hér fyrir framan mig ummæli barnaverndarráðs Íslands, sem ég skal leyfa mér að lesa hér upp. Þau eru þannig:

„Á fundi, sem haldinn var 4. þ. m., tók barnaverndarráð Íslands til umræðu lagabreytingar á framfærslulögunum, samkvæmt tilmælum formanns allsherjarnefndar efri deildar Alþingis, en hann hafði óskað umsagnar barnaverndarráðs um breytingar þær, sem verða samkvæmt umræddu frv. á 15. gr. framfærslulaganna.

Samþykkt var svofelld ályktun: Barnaverndarráð er mótfallið breytingartillögum við 15. gr. framfærslulaganna eins og þær liggja fyrir, þar sem velferð barna er enganveginn tryggð með þeim. Hinsvegar telur barnaverndarráðið það sanngjarnt, að lögskyldur framfærslumaður geti tekið barn af heimili fósturforeldra þess til þess að annast sjálfur um uppeldið, en þó því aðeins, að samþykki barnaverndarnefndar eða skólanefndar komi til.

Virðingarfyllst

f. h. barnaverndarráðs Íslands

Arngr. Kristjánsson.

Til allsherjarnefndar efri deildar Alþingis.

Ég þykist nú hafa leitt rök að því, að þetta ákvæði getur valdið miklum óþægindum og sársauka. Ég tel alveg sjálfsagt að óhlutdræg nefnd verði hér látin hafa hönd í bagga í hverju einstöku tilfelli.

2. brtt. mín er við 21. gr. Eins og kunnugt er, þá hefir frv. í för með sér talsverðar breyt. á núgildandi l., og sumar að mínu áliti sízt til bóta. Það mun hafa verið litið svo á í upphafi, að 50. gr., eins og hún var gerð 1936, væri nægilega ströng til þess að öðlast rétt yfir þeim, sem ekki eru færir um að sjá fyrir sér sjálfir. Ég álít, að ekki eigi að gera slíkar ráðstafanir um að koma mönnum til vinnu, nema því aðeins að læknir dæmi um það, hvort viðkomandi sé vinnufær eða ekki. Ég skal játa, að í l., eins og þau eru nú, er ekki farið fram á þetta, en það er samt nauðsynlegt. Ég hefi sjálfur verið vitni að því, að menn hafa verið dæmdir vinnufærir, enda þótt þeir væru fárveikir, ekki af sveitarstj., heldur af yfirboðurum sínum. Því fer ég fram á, að alltaf skuli liggja fyrir læknisvottorð í slíkum tilfellum.

2. brtt. mín er samin með tilliti til þess, að þegar til þess ráðs er gripið að koma styrkþega fyrir, þá er hugsanlegt, að hann vilji ekki vinnu, en full nauðsyn er að koma þessum mönnum til einhverra starfa. En þá er annað, sem slíkur maður á fulla kröfu á, sem sé það, að honum sé ekki goldið lakar en þeim mönnum, sem taldir eru frjálsir. Hann getur unnið sem hver annar verkamaður, og því ætti þá að launa honum lakar? Brtt. ákveður, að gjalda skuli honum kaup það, sem verkalýðsfélagið á staðnum ákveður. Þetta finnst mér eðlileg krafa, að ekki sé hægt að þvinga hóp styrkþega til að vinna fyrir óeðlilega lágu kaupi og undirbjóða þannig aðra menn.

Þriðja atriðið er það, að þegar um það er að ræða að koma styrkþega í starf, sé tekið tillit til þess, hversu mikil þörf hans er á tekjum til að framfleyta fjölskyldu sinni. Sé til dæmis um að ræða einhleypan auðnuleysingja, er ekki nauðsynlegt að koma honum í bezt launaða starfið, hann gæti þá til dæmis verið í vist, sem venjulega er verr launuð, en með orðinu vist meina ég það að vera þjónn hjá einhverjum búanda.

Ef mín till. er samþ., þá er náð sama tilgangi og með frvgr., en teknir af sárustu broddarnir, og gr. yrði með því mannúðlegri en nú er. Ég viðurkenni, að þetta er mikið vandamál, en mig uggir, að ekki sé alltaf viðhaft það réttlæti og mannúð, sem ber að viðhafa, þegar verið er að gera ráðstafanir gagnvart þeim, sem svo illa eru komnir í þjóðfélaginu, að þeir geta ekki haft ofan af fyrir sér af eigin ramleik. Ég tel, að það verði að taka tillit til tilfinninga manna í þessum efnum. En nú eru uppi þær skoðanir meðal manna, sem miklu ráða í landinu, að ekki beri að taka fullt tillit til tilfinninga þessa fólks. Hér verður því að fara meðalveg og varast að beita harðýðgi. Þetta er mín skoðun. Atkv. mun skera úr um það, hvort Alþingi vill taka undir þessa skoðun. En ég vil fara þann veg í þessum ráðstöfunum, að ekki sé hægt að segja með sanni, að þessi löggjöf sé dökkur blettur á þeim mönnum, er staðið hafa að henni á því herrans ári, sem nú er að líða.