16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

118. mál, framfærslulög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Mætti ég beina fyrirspurn til hæstv. félmrh. Mér skildist á hv. 1. þm. Reykv. (MJ), að fyrri brtt. mín á þskj. 475 væri alger misskilningur, því að hennar væri ekki þörf. Ég legg ekki svo mikið upp úr því, hvort menn skilja þessa brtt. við þá gr. rétt eða rangt, en ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh., hvort hann liti ekki svo á, að með þeim viðbótum við gr., sem a.- og b-stafliðirnir eru, sé vald barnaverndarnefnda svipað sem áður til að hafa áhrif á, hvernig börnum verði ráðstafað. Það getur haft þýðingu, hvaða skilning hann sem lögfræðingur, og maður sem hefir með þessi mál að gera, leggur á þetta atriði.

Um fleira þarf ég ekki að spyrja hæstv. félmrh. Mér láðist að geta þess hér áðan í sambandi við brtt. á þskj. 410 við 29. gr. frv., að þar sem sú till. uppfyllir að nokkru leyti þau skilyrði, sem ég myndi telja fullnægjandi í sambandi við þá gr., mun ég greiða atkv. með henni.