02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Pálmi Hannesson:

Hv. þm. Ísaf. virðist í þetta sinn hafa komizt út úr sinu venjulega geðspekt

arástandi, því að hann hóf ræðu sína á því að lýsa yfir, að það væri ósatt, að verkamenn ömuðust við, að námsmenn væru teknir í vinnu. Ég hélt því heldur aldrei fram, heldur að það væri alltaf erfiðara ug erfiðara fyrir námsmenn að komast inn, vegna þess að félag verkamanna af skiljanlegum ástæðum beitti sér fyrir að halda vinnunni að sínum félögum. En fyrst hann kemur inn á þetta atriði, að upplýsa um þessa 10 námsmenn á Siglufirði, þá skal ég upplýsa um þetta mál nú. Málið er þannig vaxið, að 10 nemendur frá háskólanum og menntaskólunum geta komizt að við vinnu þarna á Siglufirði, ekki af því, að það hafi verið boðið, heldur hefir verið beðið um það. Er þetta þó aðeins örlítill hluti af því, sem hefir verið beðið um. Það skiptir ekki miklu máli, heldur hitt, hvernig með þessi pláss er farið. Verksmiðjustjórnin hefir ekki spurt um, hverjir væru mest þurfandi fyrir vinnuna. Nei, ónei. Ég man eftir því á síðasta sumri, að þá átti ég mörgum sinnum tal við hv. þm. Ísaf. út af einum námsmanni, sem var sérstaklega áríðandi að geta fengið vinnu við verksmiðjurnar, af því að hann ætlaði að nema verksmiðjufræði við háskóla erlendis. Það tókst ekki, af því að pólitískir aðstandendur þessa hv. þm. og annara, sem sjá um þetta fyrirtæki, lögðu undir sig þetta vinnupláss. Það var ekki spurt, hverjir væru mest þurfandi fjárhagslega, heldur pólitískt, en það var ekki það, sem óskað var eftir, heldur hitt, að þeir, sem frá fjárhagslegu sjónarmiði væru mest þurfandi fyrir vinnuna, fengju hana.

Ég skil ákaflega vel, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að verkamannafélögin og þeirra forsvarsmenn reyni að halda vinnunni til sinna manna eins og þeir geta. Það er vitanlegt, að vinnuekla er mikil, en hitt er Alþingis, að skera úr, hvort verkamenn eiga einir að hafa aðgang að öllum vinnuplássum, sem það opinhera veitir, eða hvort það megi taka 10 nemendur á Siglufirði og 20 á Raufarhöfn.

Hv. þm. Ísaf. segir, að námsmennirnir geti farið í vegavinnu. Já, þeir hafa líka komizt þar að, en þá fá ekki verkamenn þau pláss. Það, sem um er deilt, eru þá þessi mismunandi vinnupláss og hverjir eigi að fá þau.

Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. atvmrh., hvort hann sjái sér ekki fært, ef til kæmi, að leita umsagnar fyrirsvarsmanna menntaskólanna og stúdentaráðs um, hvaða námsmenn mundu hafa mesta þörf fyrir vinnuplássin, áður en þeim yrði úthlutað. Það teldi ég mjög mikils virði.

Hv. þm. Ísaf. gat um, að verksmiðjustjórnin teldi erfitt að reka verksmiðjuna með helmingi manna, sem væru ekki vanir starfinu. Þá virðist mér hann gera ráð fyrir, að engir af þeim námsmönnum, sem hér er um að ræða, séu vanir slíkum störfum. Þetta er algerður misskilningur. Hv. þm. sagði líka sjálfur, að þarna væru 10 námsmenn á hverju sumri. Skyldi enginn þeirra vera vanur vinnunni? Ég get því ekkert gert úr þessari röksemd.

Þá taldi hann það mikið til andmæla, að þessir menn færu í byrjun sept. Venjan er sú, að ef þeir fá vinnuna lengur, þá þiggja þeir hana og þakka sínum sæla fyrir. Ég hygg því, að þessi verksmiðjustjórn og hreppsnefnd, sem standa að þessum andmælum, geti haft rólega nóti af þeim ástæðum. Með tilliti til þess get ég ekki séð. að nein ástæða sé til að færa töluna úr helmingi niður í þriðjung.

Ég skal aðeins ljúka máli mínu með því að segja, að frá hálfu Alþingis finnst mér fullkomin meinsemi gagnvart þessum ungu mönnum, sem við mikla erfiðleika eru að berjast til manns, að hindra þá í að geta notið þessa litla hlutar af þessari beztu atvinnu, sem ríkið hefir yfir að ráða.