23.12.1939
Neðri deild: 93. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

164. mál, fiskimálanefnd

Finnur Jónsson [frh.] :

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að hefja máls á brtt. minni, þó að hún sé ekki til umr. Þar sem ekki hafði unnizt neinn tími til þess að láta prenta slíka till., vegna þess að málið er alveg nýkomið, fyrir einni og hálfri klst. síðan, held ég að hafi verið rétt að leggja fram skriflega brtt., og vona ég, að forseti leiti afbrigða fyrir henni, svo að hún mætti koma nú til umr. og til væntanlegrar atkvgr. (Forseti: Þessi brtt. kemur aðeins til atkvgr. við 2. umr. Hv. þm. heldur áfram máli sínu). Ég sé ekki ástæðu til að tefja umr. á þessu stigi málsins. Menn eru orðnir langþreyttir og vilja komast til sinna heimila, þeir sem eiga heima í bænum, og er slíkt ekki nema eðlilegt á messu hins heilaga Þorláks. Ég vildi samt ekki láta þetta frv. fara svo til 2. umr., að ég lýsti ekki yfir afstöðu Alþfl. til þess.

Eins og kunnugt er, var fiskimálan. sett á stofn með samningum milli Alþfl. og Framsfl. á sínum tíma og hún átti að hafa forgöngu í ýmsum málum, sem snertu sjávarútveginn. Þá stóð svo á í landinu, að allir voru sammála um, að brýn nauðsyn væri á einhverri stofnun, sem gæti haft forgöngu um að afla nýs markaðar og koma með nýbreytni í öllu því, sem sjávarútveginum viðkemur. En menn voru alls ekki sammála um, í hvaða formi þessi stofnun skyldi starfa. Sérstaklega var ágreiningur um það milli meiri hluta sjútvn. annarsvegar og atvmrh. hinsvegar, hverja aðferð skyldi hafa um það, að koma á nýbreytni í þarfir sjávarútvegsins. Atvmrh. var ákaflega mikið á móti því, að fiskimálanefnd yrði sett á stofn í því formi, sem gert var. Ég sé ekki ástæðu til þess að rifja þennan ágreining upp hér, en ég vildi aðeins geta þess, að afstaða Alþfl. til þessara mála er óbreytt enn. Afstaða Alþfl. til fækkunar nefndarmanna er líka óbreytt, því okkur leikur grunur á því, að þessar lagabreyt. séu nú bornar fram einkum í því skyni að rýra valdsvið fiskimálanefndar og minnka það framkvæmdavald, sem hún hefir samkv. gildandi l. við alþflm. lítum svo á, að ef inn á þessar breyt, á að fara með lagafrv. því, sem fyrir liggur, sé stigið stórt spor aftur á bak. Hvernig sem menn hafa litið á stofnun fiskimálan. og hvernig sem þeim finnst um einstök atriði starfs hennar, verður þó ekki neitað, að henni hefir orðið mikið ágengt í þeim verkefnum, sem hún hefir haft með höndum. Hún hefir komið með nýbreytni á sviði útflutnings sjávarafurða og unnið þau stórvirki með því að reisa hraðfrystihús. Yfirleitt hefir tekizt að bæta mikið fiskmarkaðinn fyrir forgöngu fiskimálan. á því sviði, og ekki er hægt að neita því, að hún hefir stigið mörg vísindaspor á þeirri braut, sem liggur til fullkomnunar á þessum höfuðþætti í framleiðslu okkar. Ef svo með þessu frv. á að rýra valdsvið fiskimálan. og óbeinlínis minnka áhrif hennar, telur Alþfl. illa farið og að hér sé stigið stórt spor aftur á bak. Ennfremur telur hann. að sízt muni breytast til batnaðar um sölu sjávarafurða, ef fiskinn. fær ekki framvegis að láta til sín taka sem hún hefir gert hingað til. Ég vil þess vegna leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort ætlunin sé sú, að rýra svo mikið valdsvið fiskinn. sem í hans valdi kann að standa, gagnstætt þeim lögum, sem enn gilda, og hvort það sé ætlunin með fækkun nm. Ennfremur vil ég beina þeirri fyrirspurn til Framsfl., sérstaklega til ráðh. Framsfl. sem hér er viðstaddur, hvort hans vilji sé að rýra valdsvið fiskimálanefndar frá því, sem nú er. Ég tel, að enn séu þau vandræði ríkjandi um okkar atvinnuvegi, og sérstaklega um útflutning á saltfiski, að ekki veiti af því að hafa valdsvið fiskimálan. ekki minna en verið hefir, og ekki muni veita af, að hún sé skipuð 5 mönnum a. m. k.

Ég hefi leyft mér að bera fram skrifl. brtt., vegna þess að ekki hefir unnizt tími til þess að láta prenta brtt. Till. gerir ráð fyrir, að a. m. k. 5 menn haldi áfram að vera í fiskimálanefnd. Ég hefi þannig komið móti óskum hæstv. atvmrh. og lagt til, að fækkað verði um tvo. Aðalatriði þessa máls er þó það, að valdsvið fiskimálanefndar er í engu skert. Ég óska eftir því, að við þessa umr. svari hæstv. viðskmrh. og hv. atvmrh. fyrirspurnum mínum.