17.03.1939
Neðri deild: 21. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil taka það fram, að sá þýzki leiðangur, sem fór hér um Norðurland í fyrra. hafði leyfi til þess frá ríkisstjórninni. Það er því ekki rétt, að þeir hafi vaðið hér yfir landið án þess að hafa leyfi til að ferðast um landið. Og það ver enginn efi á því, að rannsóknir þess leiðangurs voru rannsóknir, sem eðlilegt var, að væru framkvæmdar.

Skal ég svo ekki hafa frekari umr. um málið, en aðeins benda á, viðvíkjandi því, sem talað Hefir verið um málmrannsóknirnar á Vestfjörðum, að þegar leyfið var veitt til þeirra, var ríkisstj. alveg ókunnugt um það af hvaða þjóð sú rannsókn yrði framkvæmd. Það var ekkert gefið upp um það, hvaða kapítal það væri, sem stæði þarna á bak við og óskaði að fá að gera þarna rannsóknir.

Og það, sem ég vil sérstaklega vekja athygli hæstv. Alþ. á, er þetta: Við getum ekki rekið okkar réttar með því að vera með hnútukast gagnvart einni þjóð frekar en annari hver svo sem sú þjóð er. En við getum það hinsvegar bezt með því að búa okkur til reglur, sem við förum eftir jafnt gagnvart öllum þjóðum. Það sjá allir, hvaða samræmi er í því að leyfa rannsóknir á málmum á Vestfjörðum, en banna svo annari þjóð að rannsaka Faxaflóa. Það er þetta sem ég vil benda á, að það verður að vera í þessum hlutum fullkomið samræmi, en slíkt samræmi álít ég ekki vera í því, sem hv. 5. þm. Reykv. leggur til þessara mála. Við verðum að skapa okkur almennar reglur um þetta, sem gilda gagnvart öllum þjóðum jafnt. (EOl: En hvað um lendingarstaðina?).