22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2794)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að þetta frv., sem „höggormur“ er kallað, hefði vel mátt vera mörg lagafrv., eins og n. hefir nú lagt til. En eins og ég hefi áður sagt, tel ég svo langt liðið á þingtímann, að ósýnt hafi verið, að málin fengju afgreiðslu, nema þau væru öll borin fram í einu lagi.

Hv. 9. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. hafa mótmælt 17. gr., um lækkun á afnotagjaldi útvarps af rafhlöðutækjum. Þegar sú till. hefir komið fram áður, hafa málsvarar sérstakra stétta verið vanir að snúast gegn henni, og enn sýnist mér krókurinn beygjast í sömu átt. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að útvarpið væri bændum miklu nauðsynlegra en Reykvíkingum. Þetta er einmitt rétt. Um leið vitum við, að vegna fjárhagsörðugleika hefir þetta nauðsynlega tæki ekki orðið nærri eins útbreitt í sveitum og þyrfti. Þó að það sé dagblað sveitamanna og eina skammdegisskemmtun, sem að verður fengin, hafa þeir orðið að spara sér móttökutækið vegna rekstrarkostnaðar. Útvarpstæki í sveitum ættu að vera þeim mun fleiri en í bæjum sem nauðsynin er þar meiri. En þetta er nær því að vera öfugt, og þar verður að finna ráð, sem duga til úrbóta.

Hv. 9. landsk. talaði um, að þeir vildu vera miklir bokkar, sem bæru „höggorminn“ fram. Mér virðist nú fleiri vilja fara að verða bokkar hér í deildinni.

Ekki fæ ég séð, að bændur standi nú betur að vígi en undanfarið til að borga afnotagjaldið. Framleiðsluvörur þeirra hafa hækkað, segja menn. Gærur hafa verið seldar góðu verði. En standa þeir betur að vígi, sem engar gærurnar eiga og bústofninn hruninn niður? Á öllu mæðiveikisvæðinu, bæði vestan lands og norðan, austur að Héraðsvötnum og víða í Árnessýslu, er bústofninn mjög rýrnaður, og ég held hann sé líka farinn að skerðast á Austurlandi af þeirri pest, sem þar er. Ef velmegun bænda væri nú mikil orðin, hví þá að veita 300–400 þús. kr., sem allir viðurkenna, að óhjákvæmilegt sé raunar að veita, vegna erfiðleika, sem þeir hafa lent í?

Ég hefi áður tekið fram, að erlendis eru afnotagjöld útvarps miklu lægri en hér, kannske að tveim löndum undanteknum, og sumstaðar 5–10 kr. á ári. Það var alls ekki vilji Alþingis að reka útvarpið sem gróðafyrirtæki og tekjustofn hins opinbera, heldur sem menningartæki. Því hafa útvarpsnotendur fyllstu ástæðu til að vonast eftir lækkun afnotagjalda strax þegar fært þykir. Og útvarpið ber sig vel. Notendur eru á 17. þús. og gjald þeirra vel hálf milljón kr. á ári. Þá eru um 90 þús. kr. fyrir auglýsingar og í þriðja lagi einar 80 þús. frá viðtækjaverzluninni, svo að þessir tekjustofnar eru komnir mikið á sjöunda hundrað þúsunda, ef þetta helzt. Þrátt fyrir þá áætlun okkar í fjvn., að rúmar 30 þús. drægjust frá tekjum vegna 17. gr. frv., virtist áætlun útvarpsins geta staðizt með lítils háttar sparnaði. Þegar ástæður leyfa, teldi ég æskilegt að geta lækkað afnotagjöldin almennt, en nú verður að nægja að líta á þá, sem lakasta aðstöðuna hafa. — Víða á landinu hafa nú móttökutæki stöðvazt vegna vöntunar á rafhlöðum, en samt sem áður er krafizt fulls gjalds fyrir þau. — Stytting á dagskrá útvarpsins, sem einkum Reykvíkingum er dálítið illa við og mótmælt hefir verið sem sparnaðarráðstöfun, styðst m. a. við þau rök, að þegar útvarp er í gangi, slitna mjög lampar, sem nú eru mjög torfengnir og dýrir, eða þá ófáanlegir. Þar er því betra að fara varlega í sakirnar, svo að ríkisútvarpið þagni ekki fyrir fullt og allt.

Þá vil ég ekki lengja umr. frekar og geri ráð fyrir, að málið mæti velvilja og sanngirni í deildinni.