23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2801)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég hefi borið fram eina brtt. við 5. gr. frv. Er hún á þá leið, að afnotagjald af hvaða útvarpsviðtæki sem er lækki niður í 20 kr. Mér sýnist ekki nema réttlátt, að þegar á að minnka dagskrá útvarpsins, þá lækki einnig það gjald, sem menn greiða fyrir það.

Ég held, að flestir séu sammála um, líka hv. flm., að ekkert réttlæti sé í því að lækka afnotagjaldið aðeins við þá, sem hafa ekki straumtæki. Þá er þó meira réttlæti í brtt. hv. 2. og 10. landsk., og ef mín till. verður ekki samþ., mun ég geta fylgt brtt. þeirra. En aðalatriðið í þessu máli er það, að ég álít sanngjarnt og rétt að lækka afnotagjaldið almennt, fyrst nú á að fara að draga úr dagskrá útvarpsins.