03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Þorsteinn Briem:

Ég ætla að segja fá orð út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði viðvíkjandi 5. gr. Ég skal ekki fara út í kostnaðinn, en aðeins benda á, að rafhlöðutækjum fylgir minni notkun og heyrist verr í þeim en öðrum tækjum. Auk þess líða oft langir tímar, svo að ekkert heyrist, af því að ekki er hægt að koma tækjunum til hleðslu. En styrkur til rafhleðslustöðva bætir ekki úr þessu til fulls. Það er því sanngjarnt, að fyrir minni og lakari not komi lægra gjald. Auk þess er hér um að ræða afskekktar byggðir oft og tíðum, sem hafa verst sambönd við umheiminn. Mér þykir einnig sanngjarnt, að þessu lakara sambandi fylgi lægra gjald. Því mun ég greiða atkv. með 5. gr. frv. og vona, að fleiri geri það. Má segja, að margt sé horfið úr frv. af því, sem upphaflega var í því, en þó að hér sé ekki um stórt dýr að ræða, er hér þó ofurlítill snigill á ferð, og þeir hafa fengið orð fyrir að komast leiðar sinnar, þó að hægt fari, en ég vona, að hæstv. stj. stuðli að því, að frv. komist leiðar sinnar út úr þinginn og verði að lögum.