28.12.1939
Neðri deild: 95. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2875)

56. mál, áfengislög

*Frsm. (Thor Thors):

Það þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir áliti allshn. Ástæður okkar eru greinilega teknar fram í nál. sjálfu. Því hefir oft verið fleygt við umr. um áfengislögin, að það væri að einhverju leyti samningsatriði við tvær helztu viðskiptaþjóðir okkar, Portúgal og Spán, að áfengissala yrði ekki takmörkuð.

Við töldum rétt í n. að fá þetta afdráttarlaust upplýst og skrifuðum því utanríkisdeild stjórnarráðsins um þetta mál. Með bréfi félmrh. er það greinilega tekið fram, að efni þessa frv. sé að ýmsu leyti í ósamræmi við gildandi utanríkissamninga eða komi í bága við þá. Við teljum því rétt, að það sé gengið beint til verks í þessu máli og í stað þess að gera ráð fyrir broti á milliríkjasamningum sé tilhlýðilegra fyrir Alþingi að segja upp þessum milliríkjasamningum, ef það er vilji Alþingis, að svo verði gert.

Þar sem við höfum fengið þær upplýsingar, að frv. þetta sé, ef það yrði samþ., brot á samningum við aðalviðskiptaþjóðir okkar á sviði saltfisksframleiðslunnar, þá teljum við ekki rétt, að deildin samþykki það, en teljum rétt að vísa því frá með rökst. dagskrá, eins og getið er í nál. og stendur nefndin einhuga að þeirri dagskrá.