03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Aðeins nokkur orð til viðbótar því, sem ég áður hefi sagt, og þá vil ég beina þeim til hæstv. atvmrh., 1. flm. frv., út af því, sem hann vildi svara til minnar ræðu.

Ég tel það fullsannað með því, sem upplýst hefir verið af hv. 6. þm. Reykv., sem á sæti í mþn., að atvmrh., sem er formaður hennar, hafi heldur viljað tefja það, að mþn. kæmi fram með álit. Hæstv. atvmrh. getur náttúrlega sagt sem svo, að hann hafi ekki fengið þessu áorkað, þótt hann hefði viljað. En ég veit ekki, undir hvaða áhrifum hann hefir verið.

Það er ekki rétt hjá hæstv. atvmrh., að þetta mál hafi verið til frjálsrar umr. og athugunar í flokkunum, þar sem hann veit, að ekkert álit var komið fram og engar till. fram bornar, og þm. gátu ekki vitað, hvaða till. myndu koma fram. Það sýnir sig nú, að engar till. komu frá n. En frv. inniheldur sjálfstæð atriði, sem einmitt hafa verið til umr. í n. Sjálf n. hefir ekki komizt að endanlegri niðurstöðu, eða a. m. k. ekki komið fram með till. En þessi till. er eftir uppástungu eins manns í þessari n. Mér er alveg óskiljanlegt, hvers vegna hæstv. atvmrh. telur, að þetta mál hafi alls ekki mátt koma fram í þingbyrjun. Það er einmitt sú meðferð, sem málið hefði átt að fá, án tillits til annarra ástæðna, ef á annað borð hefði átt að hverfa að því ráði. En því var hnýtt saman við annað atriði, sem átti að knýja fram með þetta mál í eftirdragi. Það hefði verið heppilegra, að málið hefði komið fram í þingbyrjun, því að það hefði fyrirbyggt það, sem síðar hefir komið fram í málinu, og hefði verið betra fyrir málið í heild og ég held heppilegra fyrir alla aðstöðu þess.

Hæstv. atvmrh. telur, að ef farin hefði verið uppbótarleiðin, þá hefði ekki mátt leggja aðflutningsgjald fram yfir það, sem ákveðið er nú, á þær vörur, sem brezk-íslenzki samningurinn nær til. Þetta haggar ekki því, sem ég sýndi fram á, að það hefði mátt undirbúa málið betur. En eins og hæstv. ráðh. veit, var að hans tilhlutun sjálfs borið fram á Alþ. frv. til laga um tollskrá. Hún byggist á því, að þessar brezku vörur, sem undanteknar eru frá frekari álagningu tolla í brezka samningnum, komi ekki til hækkunar í tollum. En ég sýndi fram á, að einmitt á þessum grundvelli tollskrárinnar hefði verið tiltækilegt að áætla, án þess að íþyngja frekar en þau efni standa til, töluverða fúlgu til að verja í uppbætur á verðlagi útflutningsins.

Ég sé ekki ástæðu til að taka frekar fram um þetta nú. Ég hefi áður lýst þeim ástæðum. sem liggja til grundvallar þeirri afstöðu, sem við höfum tekið, nokkur hluti úr Sjálfstfl., á Alþ. En um það, sem hæstv. atvmrh. sagði um mína ræðu, að ég hefði talað á latínu, vil ég taka það fram, að í þeirri ræðu, sem ég hélt í þrjá fjórðunga stundar, mun ég hafa notað tvö latnesk orð, sem ég hélt, að allir skildu. Það voru orðin „in casu“, sem þýðir: í þessu tilfelli, eða þegar um þetta mál er að ræða.