10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Þetta frv. er fram komið til að ráða bót á deilum þeim, sem ríkja innan verklýðsfélaganna og ógna þeim með sundrungu. Það er borið fram eftir áskorun frá málfundafélaginu Þór í Hafnarfirði, sem er samband verkamanna innan Hlífar, er fylgja Sjálfstfl. að málum. Þeir hafa kannske frekar en ýmsir aðrir innan verklýðsfélaganna orðið að sæta þar þungum búsifjum. Nú upp á síðkastið hafa komið upp harðar deilur, sem sennilega hafa hvergi verið harðari hér á landi í seinni tíð. Vil ég skýra helztu ástæður til þessara deilna til að sýna fram á réttmæti frv.

Hlíf er eitt elzta verklýðsfélag á landinu og var stofnað eingöngu til þess að gæta hagsmuna verkamanna. Þá var það regla, að í trúnaðarstöður innan félagsins voru valdir menn án tillits til pólitískra skoðana. Síðar komst félagið æ meir undir áhrif eins pólitísks flokks, Alþfl. Breyttist þá þetta á þann hátt, að tekið var að vísu á móti verkamönnum, sem beiddust upptöku í félagið, en ef aðrir en verkamenn beiddust upptöku, þá voru þeir ekki samþ., nema þeir fylgdu þessum ákveðna pólitíska flokki. Smátt og smátt breyttist þetta svo, að mikill hluti félagsmanna var ekki verkamenn, þannig, að ýmist höfðu þessir menn aldrei stundað verkamannsstörf eða voru löngu hættir því. Þeir voru allir í ákveðnu pólitísku félagi, en aðrir menn í sömu aðstöðu fengu ekki að gerast meðlimir verkamannafélagsins. Var þá oft, að öðrum en jafnaðarmönnum var varnað máls á fundum félagsins. Svo rammt kvað að þessu, að einu sinni stóð upp sjálfstæðismaður, sem hafði aðra skoðun á málunum en stj., og gerði fyrirspurn til bæjarstjóra, er þá var í félaginu, og reis þá upp formaður félagsins og sagði, að ef sjálfstæðismenn ætluðu sér að hafa aðrar skoðanir, yrðu þeir að fara úr félaginu.

Þá ætluðu nokkrir menn í Hafnarfirði, flest sjálfstæðismenn, að stofna annað verklýðsfélag, og var haldinn stofnfundur. Komu á þennan fund margir menn úr Hlíf, sem voru að vísu ekki verkamenn. Fóru þeir inn á fundinn, og er ef til vill ekki hægt að segja, að þeir hafi brotizt inn á hann, en þeir bókstaflega gengu á fundarmönnum til þess að komast innst inn í fundarsalinn og hleypa upp fundinum. Árangurinn varð sá, að ekki varð úr félagsstofnun. Eftir það hættu verkamenn yfirleitt að sækja fundi í Hlíf, ef þeir voru ekki sömu pólitísku skoðunar og ráðamenn félagsins. Lágu svo málin niðri um hríð, þar til klofningurinn varð í Alþfl. og stofnaður var svonefndur Sameiningarflokkur alþýðu.

En það var þó skoðun flestra, er ekki fylgdu jafnaðarmönnum að málum, að það þyrfti að koma verklýðsfélaginu undan pólitískum áhrifum þeirra, þar sem verklýðsfélagið var nú notað sem hver annar pólitískur félagsskapur. Þegar klofningurinn varð, fékkst nokkur leiðrétting á þeim málum, sem sjálfstæðismenn höfðu barizt fyrir innan félagsins, sérstaklega í þá átt að banna öðrum en verkamönnum að vera í félaginu og um leið að sporna við því, að félagið kæmist undir áhrif annara manna en þeirra, sem í félaginu eru. Var þá nokkrum mönnum vikið úr Hlíf. Þeir verkamenn, sem það gerðu, voru í þeirri fullvissu, að þegar þetta væri gert, gætu verkamenn sjálfir stjórnað félaginu betur, sjálfum sér til meiri heilla og blessunar. Þessir menn, sem voru reknir, undu þó ekki við brottreksturinn. Þeir höfðu verið vanir að ráða félaginu, og hugsuðu þeir sér nú að eyðileggja það með því að stofna nýtt félag. Margir þessara manna höfðu verið með í því að eyðileggja fyrir sjálfstæðismönnum stofnun nýs félags. Gerði þetta það að verkum, að hinir fylltust heift gagnvart þessum mönnum, og þess vegna hafa öldurnar risið svo hátt í Hafnarfirði sem raun ber vitni.

Nú má búast við, að ef tvö verklýðsfélög eru starfandi í Hafnarfirði, þá rísi upp fleiri félög á sama vettvangi. En ef það gerist í svo litlu bæjarfélagi sem þessu, þá er auðséð, að mikil hætta er á því, að störf þeirra beinist að því, að hvert sundri öðru, eða þá að þau leita til ákveðinna atvinnufyrirtækja um vinnu. Hlyti þetta að eyðileggja starfsemi félaganna bæði á hlutaðeigandi stað og öðrum.

Þegar deilan stóð sem hæst, gerði ég mér ljóst, að til þess að koma ró á skapsmuni manna varð að taka málið sömu tökum og ég ætlast til nú, að gert verði. Ég ætlaði mér þá strax á þinginu í vetur að bera fram þetta sama frv. og nú er fram komið, en það var að ráði minna flokksmanna, að ég gerði það ekki, vegna þess, að búizt var við, að e. t. v. næðist samkomulag milli sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna, sem og annara flokka, um friðsamlega lausn málsins. Ég varð þess einnig var, að ýmsir málsmetandi menn meðal jafnaðarmanna vildu leysa málið á svipuðum grundvelli. En þegar ég fór nú í haust að spyrjast fyrir um, hvort nokkurs árangurs væri að vænta af slíku samstarfi flokkanna í þessu máli, fékk ég það svar, að svo mundi ekki verða.

Mér er líka kunnugt um, að það var vilji margra jafnaðarmanna, að kosin yrði nefnd úr þeirra flokki og önnur nefnd, sem í væru sjálfstæðismenn, til þess að athuga þessi mál, og að þeirri athugun lokinni kæmu nefndir þessar fram með sínar till. Mér vitanlega hafa þessar nefndir varla eða alls ekki komið saman. Áleit ég því, að mál þetta mundi dragast mjög á langinn, en það mundi leiða til vandræða innan verkalýðsfélaganna, og ber ég því fram þetta frv., í þeirri von og vissu, að því verði vel tekið af forvígismönnum stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi, og vona ég, að þeir reyni að gera sitt bezta til þess að koma verkalýðssamtökunum í betra horf en þau eru nú. Ég hefi reynt að hafa grg. svo ljósa og tæmandi, að af henni kæmi skýrt fram, hvers vegna frv. er fram komið og hvað það á að laga.

Eins og segir í grg., er það aðallega þrennt, sem kemur til athugunar, og skal ég minnast á þau atriði hvert fyrir sig. Fyrst og fremst er frv. borið fram til þess að sporna við því, að klofning verði innan verkalýðsfélaganna, með því að ekki verði stofnuð fleiri félög innan hverrar starfsgreinar á sama félagssvæði. Í öðru lagi, að engir aðrir en daglaunamenn fái að vera í verkalýðsfélögunum. Menn sjá, hvílík óhæfa það er, að slíkt skuli vera, eins og nú hefir gengið til skamms tíma, bæði gegn verkamönnunum sjálfum og félögunum í heild. Það er vitanlegt, að þeir, sem ekki eru sjálfir verkamenn, en hafa verið til þessa í verkalýðsfélögunum, hafa að flestu leyti önnur sjónarmið en verkamenn. Þar kemur svo margt til greina. Kaupgjald, verkföll og svo margt og margt. Menn, sem eru kennarar, trésmiðir, forstjórar einhverra fyrirtækja, sem ekki koma verkalýðnum beint við, geta haft allt aðrar skoðanir á því, hvort gera beri verkfall eða ekki. Þegar þar að auki eru menn innan félagsskaparins, sem hafa atvinnu félagsmanna í hendi sér, þá geta margar samþykktir, sem gerðar eru innan félaganna, orðið öðruvísi en ella. Slíkt er óhæfa að skuli geta átt sér stað, eins og einmitt var í Hafnarfirði, og meiri hluti verkamanna þar krefst þess, að slíkt ástand verði ekki áframhaldandi. Það er einhuga krafa verkamanna þar, að fá að stjórna sínum málum sjálfir, eins og er í öðrum stéttarfélögum.

Þá kem ég að þriðja atriðinu. Um það hefir verið deilt í mörg ár, en það ekki fengizt lagfært, og það er að gera félögin ópólitísk. Ég verð að segja, að ég hefi ekki heyrt það frá öðrum en þeim, sem fylgja Sameiningarflokki alþýðu — kommúnistum —, að það, að hafa hlutfallskosningar innan félaganna væri að gera þau pólitísk. Ég stend í þeirri meiningu og hygg, að það muni allir gera, sem kryfja málið til mergjar, að einmitt það, að kosið sé með hlutfallskosningum til trúnaðarstarfa innan félaganna, sé til þess að gera þau ópólitísk.

Eins og sakir standa, ríkir einræði innan verkalýðsfélaganna. Þar er engin samvinna milli manna, burtséð frá því, hvort þeir eru í sama stjórnmálaflokki eða ekki. Þar er aðeins einn vilji, sem ræður, hinir hafa ekkert að segja. Ef hlutfallskosning væri höfð við kosningar í trúnaðarstöður, þá hlyti að myndast samvinna milli manna um, hvernig verkalýðsmálunum væri bezt skipað, og menn mundu vinna að málunum af meiri eindrægni. Þá mundu ýmist vera settir fram listar eftir flokkum við kosningar, eða að gefinn væri kostur á að kjósa menn, sem nytu almenns trausts innan félaganna, án tillits til, hvaða flokki þeir fylgdu.

Ég hefi með vilja ekki farið lengra inn á þetta atriði í 2. gr. frv. en að fulltrúar stéttarfélaga til stéttasambands skuli kosnir með hlutfallskosningu, en ekki farið fram á, að stjórnir verkalýðsfélaganna séu kosnar þannig. Það, sem aðallega vakir fyrir mér, er, að ef þetta ákvæði nær fram að ganga, þá er hægt, eins og nú er ástatt, að viðhafa hlutfallskosningu innan hvers félags fyrir sig; það getur hvert þeirra um sig samþykkt. En eins og sakir standa, geta verkalýðsfélögin ekki viðhaft hlutfallskosningu við kosningu fulltrúa í sambandið, þar sem lögum sambandsins er nú svo háttað, að öðrum er neitað um þátttöku í Alþýðusambandi Íslands en yfirlýstum jafnaðarmönnum. Verði þetta atriði samþ., er Alþýðusambandið skyldugt að veita hverjum þeim viðtöku, sem kjörinn er, hvaða flokki sem hann tilheyrir. Þetta mun hafa þær afleiðingar, að í ýmsar aðrar trúnaðarstöður innan félaganna verður farið að kjósa með hlutfallskosningu. Ég er viss um, eftir því, sem ýmsir jafnaðarmenn hafa látið í ljós við mig, að innan verkalýðssamtakanna eru margir þeirra, sem ekkert vilja frekar en að hafa fullt samstarf og samkomulag við sjálfstæðismenn í stjórnum verkalýðsfélaganna. Hafi einlægur vilji verið bak við þau orð, sem þeir hafa látið falla við mig, þá er enginn vafi á, að þeir munu fallast á slíkar till. sem hér eru bornar fram. Ef till. verður ekki samþ., verður ekki séð, að nokkur vilji hafí staðið á bak við þau orð, sem þeir hafa látið sér um munn fara. Þá vilja þeir ekkert samstarf við sjálfstæðismenn innan verkalýðsfélaganna.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín lengri. Eins og ég hefi tekið fram, þá er grg. tæmandi að því er tekur til þessara mála, sem frv. fjallar um. Vil ég mælast til þess, að málinu verði sem mest hraðað og fái góða afgreiðslu í þessari hv. d. og jafnframt í hv. Alþingi. Vil ég svo mælast til þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn. og fái þar fljóta og góða afgreiðslu.