18.04.1939
Efri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Páll Zóphóníasson:

Ég skal útskýra, hvað ég á við, með einföldu dæmi. Ekki mjög langt frá Reykjavík býr bóndi einn, sem á á vöxtum liðlega 90 þús. kr. Hann telur þetta á skattskýrslu og borgar skatt af því og fær líka útsvar. Hann borgar bæði skatt og útsvar af þessari upphæð, af því hann telur hana fram á skattskýrslu. Þegar þetta lagafrv. hefir verið samþ., þá mun hann fljótlega komast að raun um, að með því að telja ekki fram og láta niðurjöfnunarnefnd ekki vita um, hvað hann á í sparisjóði, þá hættir hreppurinn að vita um eign hans og hættir því að geta lagt á hana. Hann borgar að vísu til ríkissjóðsins eftir þessu frv., en hreppurinn hættir að geta lagt á sparisjóðsinnstæðuna. Í þessu er hætta fólgin. Og þótt hún sé kannske lítil hjá þeim. sem nú eiga fé á sjóðum og allir vita um nú, þá verður hún til staðar hjá hinum, sem síðar eignast innstæðufé.

Ég gæti talið mörg fleiri dæmi, því að þetta er aðeins tekið af handahófi. Að finna leið

til þess að fyrirbyggja þetta er vandi. En betur sjá augu en auga, og ég vænti þess, að frv. fái þann búning, að hægt verði að útiloka þessa hættu, t. d. með því að láta viðkomandi bæjarstjórn eða hreppsnefnd fá hluta af skattinum, en það skapar auðvitað meiri fyrirhöfn fyrir banka og sparisjóði. Það má náttúrlega hugsa sér fleiri leiðir, en þessi hætta er áreiðanlega til staðar.